Vitni gegn Weinstein fékk taugaáfall

epaselect epa08182143 Former Hollywood producer Harvey Weinstein (C) arrives to court for another day of his sexual assault trial at New York State Supreme Court in New York, New York, USA, 31 January 2020. The trial, which is in its second week, is based on sexual assault and rape allegations of two separate women.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Gera varð hlé á réttarhöldunum yfir bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein í gær eftir að eitt vitnanna gegn honum fékk taugaáfall í vitnastúku. Vitnið er önnur tveggja kvenna sem höfðuðu mál gegn Weinstein fyrir að hafa brotið á þeim kynferðislega.

Hún sat undir spurningum verjanda hans í yfir fjórar klukkustundir þegar hún brast í óstjórnandi ekka og grát. Dómarinn James Burke gerði fimm mínútna hlé á réttarhöldunum í fyrstu. Konunni tókst ekki að ná stjórn á andardrætti sínum og tárum, og átti Burke því ekki annarra kosta völ en að fresta vitnaleiðslunum til dagsins í dag. 

Konan sakar Weinstein um að hafa nauðgað sér gróflega tvisvar árið 2013. Verjendur hans reyndu að útmála hana sem raðlygara sem hafi platað Weinstein til að sofa hjá sér svo hún næði meiri frama í kvikmyndabransanum.

Alræmdur verjandi

Að sögn Guardian er verjandinn, Donna Rotunno, með það orðspor á sér að vitni hræðist spurningar hennar. Hún hefur sérhæft sig í að verja menn sem eru sakaðir um kynferðisglæpi, og aðeins tapað einu máli á margra ára ferli. 

Meðal þess sem Rotunno ýtti að konunni í vitnastúkunni í gær var að þrátt fyrir að hafa verið nauðgað tvisvar af honum árið 2013 hafi hún áfram verið í kynferðissambandi við hann út árið, og áfram árin 2014, 2015 og 2016. Konan hikaði lengi áður en hún svaraði því að hún hafi hengt sig á kveljanda sinn vegna ítrekaðara hótana hans. Hún hafi alltaf talið það vera besta kosinn í stöðunni fyrir sig og hún hafi viljað vita að hún væri í náðinni hjá honum.

Síðan fyrsta konan steig fram í október 2017, í krafti Metoo hreyfingarinnar, hafa 104 konur til viðbótar sakað Weinstein um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi