Vitnaleiðslur Geir í hag

07.03.2012 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Sex vitni gáfu skýrslu fyrir landsdómi í dag. Allt voru þetta hátt settir embættismenn árið 2008. Skýrslur þeirra voru Geir Haarde frekar í hag.

Vitni dagsins voru fyrrverandi seðlabankastjóri, þrír fyrrverandi ráðuneytisstjórar, fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og framkvæmdastjóri úr Seðlabankanum. Geir er ákærður fyrir að hafa ekki beitt sér með nægilega virkum hætti fyrir því að störf samráðshóps um fjármálastöðugleika væru nægilega markviss og skiluðu tilætluðum árangri. Fyrstu fjögur vitni dagsins sátu öll í samráðshópnum og telja öll að sú vinna sem þar hafi farið fram hafi verið markviss og árangursrík. Þetta eru þau Ingimundur Friðriksson, Baldur Guðlaugsson, Bolli Þór Bollason og Áslaug Árnadóttir. Það var skýr skilningur þeirra allra að markmið hópsins var fyrst og fremst að skipast á upplýsingum og skoðunum en ekki að taka ákvarðanir um viðbrögð við fjármálaáfalli. Sumir fulltrúar telja að skort hafi á upplýsingar innan samráðshópsins en ráðuneytisstjórarnir segja að ráðherrarnir hafi veirð upplýstir um störf hópsins.

Samkvæmt öðrum ákærulið er Geir gefið að sök að hafa ekki haft frumkvæði að því að stjórnvöld beittu virkum aðgerðum til að sporna við stærð bankakerfisins, til dæmis með sölu eigna eða flutningi höfuðstöðva banka til útlanda. Öll vitni dagsins sögðu að ekkert hafi verið hægt að gera til að sporna við stærð bankanna þegar komið var fram á árið 2008. Ekki hafi verið hægt að selja eignir og ekki hafi verið hægt að þvinga bankana með einhverjum hætti til að draga úr starfsemi sinni hér á landi. Allar slíkar áætlanir eða hugleiðingar hafi verið óraunhæfar. Opinber afskipti eða reglusetning hefði vakið vantraust á bönkunum og líklega fellt þá.

Samkvæmt þriðja ákærulið er Geir gefið að sök að hafa ekki fylgt því eftir að Icesave reikningar landsbankans yrðu fluttir í dótturfélag í Bretlandi og síðan stuðlað að því að stjórnvöld leituðu leiða til að stuðla að framgangi þess máls. Þetta mál var rætt á fundum samráðshópsins allt frá ársbyrjun 2008 en samt kom það öllum í opna skjöldu þegar Landsbankinn hóf að safna innlánum á Icesave reikninga í Hollandi í lok maí þetta ár. Sú aðgerð hafi einfaldlega veri tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins. Bolli Þór Bollason, sem var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, segist ekki hafa haft neina trú á að það tækist að flytja Icesave reikningana í dótturfélag í Bretlandi. Bolli Þór segist hafa efast um að landsbankinn væri heill í því að vilja flutning í dótturfélag. Hann segist ekki hafa verið einn um þessa skoðun.  Jón Sigurðsson, fyrrum stjórnarformaður FME, sagðist auk þess vita að Geir Haarde hafi haft mikinn hug á að vinna málinu forgang. Það hafi komið fram í samtölum forsætisráðuneytis og viðskiptaráðuneytis.

Fyrsta vitni morgundagsins er Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, en eftir hádegi á morgun er Hreiðar Már Sigurðsson á meðal vitna. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi