Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vitleysa sem ætti að taka til baka

18.09.2015 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
„Það ætti að taka þessa vitleysu til baka," segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn um tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa, um að Reykjavíkurborg sniðgangi ísraelskar vörur. Utanríkisráðuneytið segir tillöguna ekki vera í samræmi við íslensk lög.

Hefð fyrir því að samþykkja lokatillöguna
Tillagan var sú síðasta sem Björk lagði fram því hún baðst einnig lausnar á fundi borgarstjórnar, sem haldinn var á þriðjudag. Hefð er fyrir því að samþykkja lokatillögur fráfarandi borgarsfulltrúa og var hún samþykkt með 9 atkvæðum Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. Hún felur í sér að innkaupadeild Reykjavíkurborgar undirbúi og útfæri sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum meðan á hernámi Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna stendur.

Ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands
Íslensk stjórnvöld hafa í kjölfarið verið gagnrýnd af Ísraelsmönnum. Til að mynda segir sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi að Ísraelsmenn fordæmi ákvörðunina harðlega. Þá hefur utanríkisráðuneytið sent frá sér yfirlýsinguna þar sem segir að ákvörðun borgarstjórnar sé ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og ekki heldur til marks um tengls Íslands og Ísraels. Í yfirlýsingunni segir: „Samþykki Reykjavíkurborg að breyta innkaupastefnu sinni með bindandi hætti þannig að ísraelskir birgjar skuli sniðgengnir, samræmist það hvorki íslenskum lögum né ákvæðum í alþjóðlegum skuldbindingum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sem Ísland er aðili að og Reykjavíkurborg og önnur sveitafélög eru bundin af.“

„Dæmi um illa undirbúið mál“
„Þetta er dæmi um illa undirbúið mál sem eflaust er sett fram að góðum hug," segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í borginni. Hann  segir viðbrögð erlendis frá ekki koma honum á óvart. Hann hafi nefnt það í ræðu sinni á fundinum þegar tillagan var samþykkt að ákvörðunin sneri ekki einungis að því að sniðganga vörur, þetta sendi einnig skilaboð þannig að ísraelskum gestum finnist þeir ekki vera velkomnir hingað 

Halldór segir þetta ekki snúast um mannréttindi heldur viðskipti. Ef þetta snerist um mannréttindi þá væru fleiri þjóðir að gera þetta, til að mynda Palestína. „Það eru gríðarleg viðskipti á milli Ísrael og Palestínu," segir Halldór. Hann og aðrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hafa verið mótfallnir tillögunni frá upphafi og ætla að ræða málið á næsta borgarstjórnarfundi. „Ég sagði það í fréttum í gær að þarna væri borgin farin að móta utanríkisstefnu. Meirihlutinn er búinn að skaða hagsmuni, ekki bara borgarinnar, heldur einnig fyrirtækja innan borgarinnar og landsins alls. Það þarf auðvitað að bregðast við því," segir Halldór 

Segir ákvörðunina vanhugsaða
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallavina, hafnaði einnig tillögunni á þriðjudag og vill að málið verði endurskoðað. „Ég tel að þessi ákvörðun sé vanhugsuð og íhuga alvarlega að stinga upp á því á næsta borgarstjórnarfundi að hún verði dregin til baka," segir Sveinbjörg Birna.

Veltir fyrir sér hvort ákvörðunin hafi verið rétt
Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í borgarstjórn, veltir fyrir sér hvort það hafi verið rétt að samþykkja tillöguna í ljósi þeirra viðbragða sem hún hefur fengið. Hann telur ástæðu til þess að skoða málið í víðara samhengi í stað þess að sniðganga aðeins eitt ríki. Það sé mikilvægt að útfæra almenna innkaupastefnu varðandi ríki sem beita mannréttindabrotum og nefnir Kína, Rússland og Sádi-arabíu í því samhengi.

Halldór Auðar samþykkti tillöguna en segir ákvörðunina hafa verið erfiða, hann hafi rætt þetta við flokksfélaga sína og sem hafi haft skiptar skoðanir á málinu. Píratar hafi í kjölfarið velt fyrir sér hvort það sé hlutverk sveitastjórna eða borgarstjórna að móta utanríkisstefnu. Hann telur ástæðu til þess að ræða málið frekar á næsta borgarstjórnarfundi.

„Höfum staðið okkur þokkalega sem borgarstjórn í lítilli borg“
S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar Framtíðar, samþykkti tillöguna og stendur við þá ákvörðun. „Stærsti hlutinn er að vekja athygli á ákveðnu ástandi sem er þarna til staðar og þessu hernámi. Það hefur tekist bærilega," segir S. Björn. „Við höfum staðið okkur þokkalega sem borgarstjórn í lítilli borg. Þetta minnir mig á þegar við slitum vináttusambandi við Moskvu," segir hann. Það var gert til þess að mótmæla mannréttindabrotum gegn sam- og tvíkynhneigðu og transfólki. Þá hafi Jón Gnarr sem borgarstjóri staðið með PEN, alþjóðasataka ljóðskálda og rithöfunda, fyrir  tjáningarfrelsi og lausn Liu Xiaobo sem haldið var föngnum af kínverska ríkinu.

S. Björn segir málið ekki hafa verið vanhugsað en að aldrei sé hægt að meta svona aðgerðir að fullu. „Það er grundvallaratriði að þessi deila er þess eðlis að þeir einu sem geta leyst hana er Ísraelar," segir hann. S. Björn segir að þó aðrar þjóðir sem Íslendingar stundi viðskipti við brjóti einnig mannréttindi sé ekki ástæða til þess að sleppa þessari aðgerð. „Það er ekki þar með sagt að við eigum ekki að gera neitt," segir S. Björn.