Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vítisvist fólks sem læst er í eigin líkama

Mynd: - / Veröld

Vítisvist fólks sem læst er í eigin líkama

05.11.2015 - 11:07

Höfundar

Ólafur Jóhann Ólafsson þræðir saman tónlist, vísindum og ástum í nýjustu bók sinni, Endurkoman. Aðalsöguhetjan er hálfíslenskur læknir sem býr í New York og fæst við rannsóknir á sjúklingum sem kunna að vera með meðvitund en geta ekkert tjáð sig — sjúklingar sem eru líkt og læstir inn í líkama sínum, sem Ólafur telur að komist næst vítisvist.

Þetta er fyrsta skáldsaga Ólafs Jóhanns síðan Málverkið sem kom út 2011, en fyrr á árinu kom út eftir hann ljóðabókin Almanakið.

„Það skemmtilega við að skrifa bækur er að maður getur kafað til botns í einhverju sem maður kannski vissi ekki allt of mikið um fyrirfram,“ segir Ólafur Jóhann. „Það er tvennt í þessari bók, það er annars vegar píanóleikurinn og tónlistin, sem ég þekkti náttúrulega sem unnandi. Svo eru þessar rannsóknir á fólki sem liggur inn í sjálfu sér, án þess að geta tjáð sig eða hreyft sig. Er oft talið heiladautt, en er það ekki, hugsar heila hugsun. Það hefur mér fundist oft skilgreiningin á helvíti.“

Ólafur Jóhann var einnig spurður hvort hann hefði áhuga á að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands, en hann hefur oft verið nefndur sem álitlegt forsetaefni. Ólafur segir þó ólíklegt að hann muni gefa kost á sér, en hann hafi ekki hugleitt málið nógu mikið til að útiloka það.

„Ég hef ekki hugleitt þetta mikið, mjög lítið í rauninni, og ýti því frá mér þegar ég er spurður að því. Ég hef ekki orðið var við neinar fjöldasamkomur þar sem verið er að þrýsta á mig.“