Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vita ekki hvort eða hvenær upplýsingar fást

07.03.2018 - 16:52
Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra hafði ekki neina vitneskju um að einhverjir Íslendingar hefðu verið í Sýrlandi síðastliðna tólf mánuði en vinnur nú að því að afla upplýsinga um Hauk Hilmarsson sem er sagður hafa fallið í Afrín-héraði í Sýrlandi í lok síðasta mánaðar. Ríkislögreglustjóri segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV að ekki liggi fyrir á þessari stundi hvort og/eða hvenær upplýsingar fáist.

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, óskaði í hádeginu eftir aðstoð almennings við að afla upplýsinga um son sinn. Hún bað þá sem eitthvað vissu um hann eða hvað hann hefði verið að gera síðasta árið að hafa samband við sig í tölvupósti. 

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er nú allra leiða leitað til að fá upplýsingar um Hauk og  ráðuneytið hefur sett sig í samband við aðstandendur hans. Þá hefur ráðuneytið sett sig í samband við alla ræðismenn Íslands í Tyrklandi. 

Haukur var í tyrkneskum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sagður hafa barist með Varnarsveitum Kúrda í norðvesturhluta Sýrlands gegn hersveitum Tyrkja.

Síðdegis í dag birtist svo myndskeið af manni sem er sagður vera Haukur. Þar kynnir hann sig undir nafninu Şahin Hüseyni og segist vera frá Íslandi. Hann sé í Afrín-héraði til að sýna samstöðu með byltingunni. 

Í fréttum tyrkneskra miðla er Haukur sagður hafa komið til Sýrlands í gegnum anarkistasamtökin RUIS sem eru að mestu skipuð grískum sjálfboðaliðum. Hann hafi komið til Sýrlands í júlí á síðasta ári.

Í yfirlýsingu sem fréttastofa fékk frá Varnarsveitum Kúrda í Afrín-héraði er Haukur sagður hafa fallið í sprengjuárás tyrkneska hersins ásamt tveimur arabískum vinum sínum. Þeim skiljist að ekki hafi verið hægt að ná í lík hans fyrr en nú.  Þetta hefur þó ekki fengist staðfest. Haukur er sagður hafa fallið í þorpi sem kallað er Badina í Rajo-héraði og að herforingi í hersveit Hauks hafi staðfest fall hans. Frekari upplýsingar liggi ekki fyrir.

Fréttastofa sendi fyrr í dag alþjóðadeild ríkislögreglustjóra fyrirspurn og fékk þau svör að hún hefði ekki haft vitneskju um veru Hauks í Sýrlandi. Alþjóðadeildinni væri heldur ekki kunnugt um að fleiri Íslendingar væru í Sýrlandi en að embættið væri nú að vinna að því að afla upplýsinga um málið. „Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort og/eða hvenær upplýsingar fást,“ segir í svari Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra.

Þá hafi embættið engar upplýsingar um að einhverjir Íslendingar hafi tekið þátt í stríðsátökum í Sýrlandi frá því að mannskæð borgarastyrjöld braust út í landinu fyrir sjö árum.