Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Vita ekkert um flugumanninn

17.05.2011 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Engin gögn finnast hjá embætti Ríkislögreglustjóra sem benda til þess að vitað hafi verið að Mark Kennedy hafi verið hér á landi sem flugumaður bresku lögreglunnar undir því yfirskyni að mótmæla Kárahnjúkavirkjun árið 2005.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir í yfirlýsingu að Íslendingar hljóti að gera þá afdráttarlausu kröfu til lögreglu, sem þeir eigi í samstarfi við, að hún leyfi ekki framferði eins og evrópsk lögregluyfirvöld eru sökuð um að viðhafa - að kalla til flugumenn sem auk þess að njósna um fólk æsi til uppþota og jafnvel ofbeldis til þess að sverta góðan málstað, eins og segir í yfirlýsingunni.

Breski lögreglumaðurinn Mark Kennedy tók þátt í mótmælum grasrótarsamtaka í 22 evrópulöndum í þeim tilgangi að afla upplýsinga fyrir bresku lögregluna.

Í yfirlýsingu innanríkisráðherra kemur fram að Kennedy hafi stofnað til kynferðislegs sambands við konur úr röðum mótmælenda. Það sé skýlaust brot á lögum og lögreglusamþykktum hjá siðuðum þjóðum. Í Þýskalandi og jafnvel víðar hyggist konur, sem orðið hafa fyrir barðinu á Kennedy, leggja fram kæru á hendur honum.

Ögmundur segir að ef svo fari, þurfi að koma öllum upplýsingum um hugsanleg óeðlileg afskipti mannsins af mótmælendum hér á landi á framfæri við bresk yfirvöld. Þá segir Ögmundur í yfirlýsingunni að sér finnist íhlutun yfirvalda með þessum hætti í mótmæli af pólitískum toga beinlínis vera tilræði við lýðræðið.

Embætti ríkislögreglustjóra fann eins og fyrr segir engin gögn um að vitað hafi verið af flugumanni bresku lögreglunnar hér á landi árið 2005. Í skýrslu Ríkislögreglustjóra kemur þó fram að samstarf hafi verið milli íslensku lögreglunnar og erlendra lögregluliða um miðlun upplýsinga um aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúka.