Vistkerfaþjónusta

Mynd með færslu
 Mynd:

Vistkerfaþjónusta

06.02.2014 - 15:03
Þjónustan sem náttúran veitir okkur ókeypis er umfjöllunarefnið í pistli Stefáns Gíslasonar sem lesa má hér að neðan.


Líklega finnst okkur flestum að sú þjónusta sem náttúran veitir okkur sé sjálfsögð og ókeypis og muni alltaf vera það. Reyndar hugsum við líklega alls ekki um þetta sem þjónustu, heldur sem einhver gæði sem eru bara þarna til staðar fyrir okkur, hvort sem við erum að tala um skjólið af trjánum, bláberin á lynginu, vatnið í vatnsveitunni eða hreina loftið sem við öndum að okkur. En þegar betur er að gáð er þetta auðvitað þjónusta, og ef náttúran myndi ekki veita okkur hana þyrftum við að verða okkur út um hana með öðrum hætti. Og ef það er á annað borð hægt, þá kostar það örugglega fullt af peningum, ólíkt því sem gerist í náttúrunni.

 Þessi ókeypis þjónusta sem náttúran veitir okkur er það sem kallað er vistkerfaþjónusta, eða „ecosystem services“ eins og það nefnist á enskri tungu. Þessi þjónusta er oft flokkuð í fjóra flokka, þ.e.a.s. vörur, stýriþjónustu, stuðningsþjónustu og menningartengda þjónustu. Vörurnar eru hvers konar náttúruafurðir, svo sem fæða, vatn, hreint loft, eldsneyti og byggingarefni sem náttúran framleiðir án þess að við tökum nokkurn þátt í því – og án þess að við borgum krónu fyrir. Stýri- og stuðningsþjónustan getur falist í frævun nytjaplantna og flóðavörnum, svo dæmi séu tekin, og menningartengda þjónustan felur m.a. í sér tækifæri til útivistar og náttúruupplifunar, sem vissulega skiptir flest okkar miklu máli.

 Vistkerfaþjónustan ætti fljótt á litið að vera fyrir alla, þannig að hver jarðarbúi geti notið hennar til jafns við alla hina jarðarbúana. En þannig er það ekki í reynd. Fyrir svo sem 20 árum var gjarnan gengið út frá því að þau 20% jarðarbúa sem búa í ríkustu löndum heims notuðu um 80% af auðlindum jarðar, en hin 80% yrðu að gera sér að góðu þau 20% auðlindanna sem eftir eru. Síðan þá hygg ég að þetta hlutfall hafi jafnvel versnað. Kannski erum við í þeirri stöðu í dag að 15% jarðarbúa noti 85% af auðlindunum. Í þokkabót hefur litlum hluta jarðarbúa tekist að ná einhvers konar eignarhaldi á allstórum hluta auðlindanna og er farinn að selja hinum þær fyrir drjúgan skilding. Auðlindir sem áður voru í almannaeigu eru sem sagt einkavæddar í vaxandi mæli. Sumir tala um vatnið sem eina síðustu auðlindina sem sé um það bil að færast úr almenningseign yfir á fárra hendur.

 Sem dæmi um þjónustu sem náttúran veitti áður ókeypis en fólk þarf nú að kaupa af sjálfskipuðum eða lögskipuðum vörslumönnum eru fiskur og fræ. Ef maður ber þessi tvö dæmi saman, kemur hins vegar í ljós að ástæður breytinganna eru mjög ólíkar. Ef við lítum fyrst á fiskinn – og tökum þorsk við Íslandsstrendur sem dæmi – þá gátu menn áður fyrr veitt eins og þeim sýndist, eða með öðrum orðum nýtt sér þessa vistkerfaþjónustu að vild. En svo kom að því að ásóknin varð of mikil og þá var gripið til þess að setja kvóta á hvern notanda um sig til að auðlindin myndi ekki ganga til þurrðar. Þarna var sem sagt komið upp ástand sem yfirleitt er kallað „harmleikur almenninganna“ eða „Tragedy of the commons“, sem einkennist af því að jafnvel þótt auðlindin sé fullnýtt getur hver notandi um sig aukið hagnað sinn til skamms tíma með því að taka enn meira til sín. Þetta kemur niður á heildinni og ef ekkert er að gert tapa allir þegar upp er staðið. Frædæmið er annars eðlis. Þar hafa stórfyrirtæki náð að sölsa undir sig einkaleyfi á fræjum tiltekinna plantna, þannig að bændur sem áður voru sjálfum sér nógir með fræ þurfa nú að kaupa þau dýrum dómum. Þetta er reyndar bundið við einstök svæði og einstakar tegundir, og hefur helst borið á góma í sambandi við fræ erfðabreyttra plantna.

 Eftir því sem fólki á jörðinni fjölgar og neysla hvers og eins eykst, dregur líka smátt og smátt úr þeirri þjónustu sem náttúran getur veitt. Menn eiga jafnvel á hættu að heilu þjónustuflokkarnir leggist af, rétt eins og í opinberri þjónustu á tímum niðurskurðar. Ein þeirra tegunda af vistkerfaþjónustu sem hvað oftast er nefnd í þessu sambandi um þessar mundir er frævun plantna. Býflugur og fleiri skordýr hafa nefnilega séð um það frá örófi alda að bera frjókorn frá karlkyns plöntum yfir til kvenkyns plantna og þannig gert plöntunum mögulegt að fjölga sér og þróast. Flugurnar hafa ekki rukkað krónu fyrir þetta, jafnvel þótt starfsemin hafi gríðarlega þýðingu fyrir hagkerfi mannanna. Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út árið 2011 var áætlað að býflugur, fiðrildi, bjöllur, fuglar og aðrir frjóberar inntu árlega af hendi þjónustu sem meta mætti á 153 milljarða evra, eða rétt um 24.000 milljarða íslenskra króna. Þarna var sem sagt verið að áætla hvað það myndi kosta að dreifa þessum frjókornum ef núverandi þjónusta legðist af.

 Ástæða þess að frævun plantna ber svo oft á góma um þessar mundir er sú, að veruleg fækkun hefur orðið í býflugnastofnun víða um heim. Menn eru ekki á einu máli um ástæðuna, nema kannski að því leyti af hún sé ÖÐRUM að kenna. Til dæmis telja framleiðendur skordýraeiturs með virka efnið neónikótínoíð það af og frá að notkun eitursins þeirra eigi þarna einhvern hlut að máli. Matvælaöryggisstofnun Evrópu komst að annarri niðurstöðu fyrir rúmu ári síðan og í framhaldinu voru þessi efni bönnuð í löndum sambandsins í viðleitni þeirra til að viðhalda býflugnastofnum og þjónustunni sem þeir veita. Átta af löndum sambandsins greiddu atkvæði á móti banninu, og voru Bretar þar fremstir í flokki.

 Rannsóknir vísindamanna við háskólann í Southampton benda til að efni í dísilreyk geti torveldað býflugum að greina blómalykt og þannig haft neikvæð áhrif á frævun plantna og þar með á fæðuöryggi jarðarbúa, og reyndar má gera ráð fyrir að sama gildi um reyk frá annarri brennslu. Neónikótínoíð er þannig sjálfsagt ekki eini sökudólgurinn. En hvað sem öllu líður er sagan um býflugurnar og blómin gott dæmi um þau áhrif sem maðurinn getur haft á náttúruna með athöfnum sínum, jafnvel þótt upphaflegur tilgangur athafnanna hafi verið einhver allt annar.

 Ég nefndi hérna áðan að býflugur og nokkur önnur lítil dýr gæfu okkur þjónustu sína við frævun plantna, sem samtals væri metin á 24.000 milljarða íslenskra króna. Því er eðlilegt að spurt sé hvert myndi vera heildarverðmæti allrar þeirrar þjónustu sem vistkerfin veita okkur án þess að rukka fyrir það. Í frægri grein sem Robert Costanza og félagar skrifuðu í tímaritið Nature í maí 1997 var talan 33.000 milljarðar Bandaríkjadala sett fram sem líklegt heildarverðmæti, en þetta samsvarar rétt tæplega 4 milljónum milljarða íslenskra króna miðað við gengi gærdagsins. Á þessum tíma var samanlögð þjóðarframleiðsla allra ríkja heims um 18.000 milljarðar Bandaríkjadala, þannig að verðmæti vistkerfaþjónustunnar var samkvæmt þessum útreikningum nálægt því að vera tvöfalt meira en samanlögð stærð allra hagkerfa heimsins. Nýlegar rannsóknir benda reyndar til að þarna hafi meira að segja verið um vanmat að ræða.

 Menn halda því stundum fram að það kosti mikla peninga að vernda náttúruna. En flest bendir þó til þess að það kosti miklu meiri peninga að gera það ekki.