Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Vissulega er fólk hrætt við þetta“

29.03.2019 - 14:24
Mynd með færslu
Kópasker. Mynd: Frank Bradford Mynd:
Íbúar á Kópaskeri og nágrenni eru uggandi vegna jarðskjáftahrinunnar sem þar hefur staðið alla þessa viku. Margir hafa gert ráðstafanir til að forða tjóni ef stór jarðskjáfti ríður yfir. Skjálftarnir hafa farið minnkandi frá því í gærkvöld en þó eru ekki talin merki um að neitt sé að draga úr hrinunni.

Frá því jörð fór að skjálfa við Kópasker á laugardag hafa um 2200 skjálftar komið fram á sjálfvirkum mælum. Átta skjálftar hafa mælst af stærðinni þrír og yfir og sá stærsti 4,2. Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að um 360 skjálftar hafi mælst frá miðnætti. Þetta séu allt minni skjáftar en áður hafi mælst, en það séu ekki endilega vísbendingar um að það sé að draga úr hrinunni.

Fólk tali mikið saman og finnist þetta óþægilegt

Íbúar á Kópaskeri eru eðlilega uggandi yfir þessu ástandi og Inga Sigurðardóttir, verslunareigandi þar og aðalmaður í hverfisráði Öxarfjarðar, segir þetta mikið rætt í þorpinu. „Já, vissulega er fólk hrætt við þetta. En það er nú ekki eins og það sé einhver panik, heldur tala fólk um það sín á milli að þetta sé óþægilegt og vonandi fari þessu að linna og þess háttar. Þar sem fólk kemur saman er það auðvitað að tala um þetta og rifja upp hvar það var við stóra skjálftann sem varð 1976, þeir sem voru hérna þá.“

Festa stóra hluti svo þeir fari ekki af stað 

Óvissustigi vegna skjálftanna var lýst yfir í gær og þá þurfi fólk að fylgjast betur með tilkynningum, kynna sér vel allar öryggisráðstafanir og almennt að vera meira á varðbergi. „Þá þarf hver og einn að líta yfir sitt umhverfi og tryggja hluti,“ segir Inga. „Og fylgjast með því að það sé ekki hætta og það séu ekki hlutir á veggjum sem detta kannski niður í rúm og annað sem hefur verið bent á. Þannig að fólk er kannski að fara yfir sína hluti. Og ég veit að fólk hefur verið að festa hjá sér stóra hluti, eins og fiskabúr til dæmis, svo það fari nú ekki af stað. Og ég batt sjónvarpið hérna betur við vegginn.“

Ekki hafi enn verið boðað til íbúafundar

Inga segir ekki hafa verið boðað til sérstaks íbúafundar, en einhver fyrirtæki á Kópaskeri hafi haldið fundi. Sérstaklega þar sem erlent fólk starfar. Og sjálf hafi hún upplýst erlenda íbúa í gegnum Facebook. „Í Fjallalambi þá var framkvæmdastjórinn með fund með starfsfólkinu. Þar er mikið af útlendingum. Og þar var hann með fund þar sem hann var að útskýra og segja frá þessu.“