Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Vissu en þögðu í 48 ár

24.06.2011 - 12:39
Ábendingar um meint kynferðisafbrot fyrrverandi skólastjóra Landakotsskóla bárust kaþólsku kirkjunni fyrst árið 1963, en ekkert var gert í málinu.

Þetta kemur fram kemur í Fréttatímanum í dag.  Ofbeldið virðast hafa staðið yfir um árabil.


Um tuttugu rúður voru brotnar í bústað kaþólska biskupsins í nótt - lögregla segir að verknaðurinn tengist umfjöllun fjölmiðla um Landakotsskóla.


Fréttatíminn heldur áfram umfjöllun sinni í dag um meint kynferðisafbrot séra Georges, sem var skólastjóri í Landakotsskóla um árabil. Í blaðinu eru viðtöl við tvær konur sem báðar segja að skólastjórinn hafi beitt þær kynferðislegu ofbeldi.


Önnur þeirra varð fyrir þessu ofbeldi í þrjú ár, frá 1959 til 1963. Faðir hennar fór á fund biskupsins sem þá var yfir kaþólsku kirkjunni hér á landi og sagði honum að skólastjórinn hefði misnotað dóttur sína, en engin eftirmál urðu af fundinum.


Hin konan var í Landakotsskóla frá 1982 til 1989 og segir að hún hafi í eitt skipti orðið fyrir grófu ofbeldi af hálfu séra Georges. Hann var skólastjóri Landakotsskóla í um þrjátíu ár, en lést árið 2008.


Í síðustu viku birti Fréttatíminn frásagnir tveggja manna sem saka fyrrverandi starfsmenn kirkjunnar - þar á meðal skólastjórann - um gróf brot gegn sér.


Í áranna rás hafa þessir menn og önnur konan sagt prestum kirkjunnar, nunnum og biskupi frá þessum atburðum, án þess að nokkuð virðist hafa verið gert.


Mál mannanna tveggja eru nú til meðferðar hjá fagráði um kynferðisbrot sem starfar á vegum innanríkisráðuneytisins. Ráðið átti fyrir tveimur mánuðum fund með núverandi biskupi kaþólsku kirkjunnar um þessi mál og vitað er um að minnsta kosti tvö önnur mál sem tengjast Landakotsskóla, sem gætu borist inn á borð ráðsins.


Starfsmenn kaþólsku kirkjunnar hafa til þessa ekki tjáð sig opinberlega, en í yfirlýsingu biskups nýlega segir að kirkjan taki þessar ásakanir alvarlega og vilji að yfirvöld rannsaki málin.


Fréttu af málinu í haust


Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að sér hafi verið greint frá kynferðisafbrotum innan kaþólsku kirkjunnar síðastliðið haust. Hann lagði þá til að málinu yrði vísað til lögreglunnar. Það var gert. Eftir það óskaði hann eftir fundi með biskupi kaþólsku kirkjunnar. Á honum voru fulltrúar í fagráði sem ráðherra hefur komið á laggirnar til að fást við kynferðisafbrotamál, auk innanríkisráðherra og biskups.


Ögmundur segir að biskup haldi því fram að hann verið að bíða eftir frekari upplýsingum frá ráðuneytinu. Hann kveðst ekki kannast við það. Biskup hafi ekki kallað eftir neinu slíku.


Ráðherra fagnar því að þessi mál skuli vera komin til umræðu í þjóðfélaginu. Hann segist bíða eftir því að kaþólska kirkjan taki af festu á þeim.