„Vissi ekki að þetta hefði verið faðir minn“

14.04.2017 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd: Viktoría Hermannsdóttir - RÚV
„Þau sögðu mér þetta þegar ég var þrettán ára gamall, að þau væru ekki foreldrar mínir heldur kona sem ég hafði alltaf kynnst sem frænku,“ segir Baldur Hrafnkell Jónsson.

Saga Baldurs og bróður hans, Sigurðar Einarssonar, er sögð í öðrum þætti Ástandsbarna á Rás 1.

Þeir eru báðir synir íslenskrar konu og bandarískra hermanna. Móðir þeirra var 16 ára þegar Sigurður fæddist og 18 ára þegar Baldur fæddist. Vegna sárrar fátæktar þurfti hún að gefa annan þeirra til ættleiðingar. Baldur var yngri og var gefinn innan fjölskyldunnar, til frænku þeirra sem nýlega hafði misst barn. Bræðurnir ólust því upp sem frændur fram á unglingsár, við gjörólíkar aðstæður. 

Baldur segir að líklega hafi foreldrar hans ákveðið að segja honum þetta á þessum tímapunkti þar sem það hafi verið farið að spyrjast út að hann væri sonur annarrar konu og bandarísks hermanns.

„Ég held að það hafi verið farinn einhver orðrómur af stað í 11-12 ára bekk að ég væri af erlendum uppruna. Ég var með dekkra hár og brún augu heldur en svona var almennt meðal skólasystkina minna. Vinkonur mínar í skólanum sögðu mér að strákarnir sumir væru eitthvað að pískra um þetta og væru eitthvað afbrýðisamir og eitthvað svona. Og þeir voru stundum að reyna berja mig og ég vissi ekkert alveg af hverju en það hefur sennilega verið eitthvað svona: Berja helvítis útlendinginn.“ 

Og hann segir orðróm sem þennan byrja hjá fullorðna fólkinu. „Það er vanalega foreldrarnir sem blaðra einhverju í börnin.“

Baldur Hrafnkell hitti föður sinn einu sinni þegar hann var 6-7 ára gamall og man vel eftir því. „Þá fara foreldrar mínir með mig til Keflavíkur, út á flugvöll og ég hitti hann þar. Hann var að snudda með mér part úr degi, var með mér á leikvelli, gaf mér hamborgara sem ég var að smakka í fyrsta skipti þá. Og já, sem sé en þetta vissi ég ekki að þetta hefði verið faðir minn fyrr en ég er kominn á unglingsár.“

Hægt er að hlusta á sögur bræðranna hér og leit þeirra að upplýsingum um feður sína. 

 

viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi