Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vísindavarpið - Talan einn

Í Vísindavarpi kvöldsins ætlum við að tala um tölur. En ekki allar tölur - heldur eina ákveðna tölu. Fyrstu töluna: Einn. Ég segi ykkur frá því hvað einn er gamall (hann er mun eldri en þig grunar), hvernig hann hefur þróast í gegnum aldirnar og annað tengt því að vera númer eitt!

En við skulum byrja á byrjuninni: Hvaðan kom einn?
Það er margt á huldu við uppruna tölunnar einn. Að öllum líkindum var það frummaður (eða kona) sem var sá fyrsti eða sú fyrsta, sem ákvað að ,,Þetta strik þarna," þýddi einn.
Það er þó bara kenning og eiginlega ekki hægt að sanna hana. Hvers vegna? Jú, því þó það eru vissulega til mörgþúsund ára gömul bein sem búið er að rista strik í, getum við ekki vitað með algjörri vissu að þar hafi einhver verið að telja. Kannski var bara einhver að fikta.

Vísindamenn vilja meina að ásinn, talan einn, sé mun yngri en við mannkynið. Við lifðum í ótalmörg ár áður en nokkrum datt í hug að byrja að telja. Við höfðum nóg annað við tímann að gera, eins og að éta, sofa og reyna að finna upp sjónvarpið svo við hefðum eitthvað að gera á milli þess sem við átum og sváfum.

20 þúsund ára gamlar heimildir
Elstu heimildirnar sem hægt er að stóla á og tengjast talningu á einhvern hátt eru aðeins um um 20 þúsund ára gamlar. Það hljómar svakalega gamalt - en það er það ekki. Þessar heimildir segja okkur að einhver hafi notað töluna einn og þá notað hana til þess að telja. Sönnunargagnið er hið svokallaða Ishango-bein, sem fannst í Kongó árið 1960. Á beinið hafa verið rist ótalmörg strik - ásar sem standa fyrir töluna einn. En hvernig er hægt að vera viss um að það að hér sé um tölur að ræða? Hvernig getum við vitað fyrir víst að þetta sé ekki bara eitthvað krot - að einhverjum frummanninum hafi bara leiðst fáránlega mikið og hafi byrjað að eyðileggja beinið sem hann var að enda við að naga. Jú, ef þú skoðar beinið sérðu að öðru megin á því er búið að rista 60 ása - 60 strik. Og ef þú snýrð því við og skoðar það hinum megin; 60 strik sömuleiðis. Þetta er engin tilviljun - hér var einhver - í fyrsta skiptið - að telja.

Súmerar koma næstir við sögu, um það bil 4000 árum fyrir Krist. Þeir voru fyrstir - svo vitað sé - til þess að hætta að rista ,,einn" á bein og bjuggu þess í stað til litla keilulaga hluti ("tokens" á ensku) sem stóðu fyrir töluna ,,einn". Sem sagt; ein keila þýddi einn - eitthvað. Ein hæna. Einn hestur. Eitt sjónvarp. Þið vitið hvað ég meina. Þannig gátu Súmerar stundað viðskipti og talnareikning. Og rukkað skatta - takk fyrir kærlega. Við getum verið þeim ævinlega þakklát fyirr það. Súmerar voru afar klárir og eru einnig þekktir fyrir að hafa verið fyrstir (svo vitað sé) til að skrifa niður alls konar fróðleik.

Fyrsta milljónin!
Næst spólum við um 1000 ár fram í tímann og heimsækjum Egyptaland - árið 3000 fyrir Krist. Egypsku faróarnir voru miklir og voldugir og áttu það mikið af hlutum og þrælum að það þurfti auðvitað að hafa eitthvað skipulag á þessu öllu saman. Þeir tóku þá upp á því að byrja að skrifa niður tölur. Sumir þeirra voru meir að segja svo ríkir að það þurfti að búa til nýjar tölur fyrir þá. Þær voru samt allt öðru vísi en tölurnar sem við notum í dag. Þær voru meira eins og myndir. Ég skal lýsa þeim fyrir ykkur:

Einn var lína - eins og við gerum í dag. Tíu var reipi. Hundrað var reipi sem snerist í spíral. Þúsund var lótus, tákn fyrir ánægju. Ástæðan fyrir því var að enginn nema þeir ríku áttu þúsund eintök af einhverju og því fylgdi auðvitað mikil ánægja. 10 þúsund var táknað sem ráðríkur og skipandi fingur og svo var það lokatalan - tala sem bara faróar notuðu til að telja þrælana sína - milljón. Og hvernig var milljón teiknuð? Jú - sem þræll á hnjánum með hendurnar upp í loftið. Það segir eiginlega allt sem segja þarf um stéttarskiptinguna á þessum tíma.
Það - var milljón. Fyrsta milljónin.

Til að heyra meira um töluna einn, nokkur ótrúleg heimsmet og pressuna sem fylgir því að vera fyrstu skaltu hlusta á þáttinn! Hann er hérna rétt fyrir ofan ...

aevarth's picture
Ævar Þór Benediktsson
dagskrárgerðarmaður