Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vísindavarpið - Ísland

Í þættinum í dag ætlum við að rannsaka Ísland - því landið okkar er nefnilega bæði dularfullt og spennandi. Við ætlum að skoða landnám, eldgos og þjóðsögur, þegar sjóræningjar rændu íslenskum sýslumanni og hvort hægt sé að koma öllum Jarðarbúum fyrir á Vatnajökli.

Landnám
Ingólfur Arnarson nam manna fyrstur land á Íslandi og kom siglandi alla leið frá Noregi. Þegar hann sá Ísland skutlaði hann tveimur stórum súlum, öndvegissúlum, fyrir borð og hét því að byggja bú sitt þar sem þær kæmu að landi. Það tók nokkurn tíma að finna súlurnar og maður veltir því fyrir sér hvort Ingólfur hefði flutt eitthvað annað ef þær hefðu ekki komið í leitirnar. Kannski til Grænlands? Loksins fundu þrælar Ingólfs súlurnar í fjörunni við það sem við köllum í dag Reykjavík. Ástæðan fyrir nafngiftinni er sú að Ingólfur og lið hans sá reyk stíga úr jörðinni í Reykjavík, sem líklega var jarðhiti.
Stöldrum aðeins við - hvað myndir þú kalla Reykjavík ef þú mættir ráða? Það fylgir því nefnilega mikil ábyrgð að velja gott nafn þegar þú ert að fara að nefna nýjan stað. Þú þarft að líta í kring um þig, skoða hvað einkennir staðinn og svo velja gott og gilt nafn sem allir geta verið ánægðir með. Prumpustaðir er t.d. dæmi um nafn sem er ekkert sérstaklega gott - nema auðvitað að stöðugur vindgangur einkenni staðinn. Líttu í kring um þig, þar sem þú ert nákvæmlega núna. Jafnvel þó það sé bara herbergið þitt. Ef þú ættir að nefna það einhverju svakalega flottu nafni, hvað myndirðu kalla það? Ó-tiltektarstaðir? Kojuvík? Legó-út-um-allt-eyri? Hugsaðu málið. 

Eldgos
Fyrir um þúsund árum héldu víkingarnir að eldgos yrðu vegna þess að goðin væru reið við þá. Í dag vitum við betur. Það eru tvær ástæður fyrir því að hér á Íslandi eru reglulega eldgos. Sú fyrri er að landið okkar liggur á tveimur jarðflekum sem eru að reka hvor frá öðrum, Ameríkuflekanum og Evrasíuflekanum. Ef þú myndir taka þykka og gómsæta rjómatertu, fylla hana af mjúku súkkulaði og reyna svo að tosa hana hægt og rólega í sundur get ég lofað þér því að súkkulaði mun flæða úr sárinu. Ímyndaðu þér að Ísland sé súkkulaðifyllta rjómatertan – og súkkulaðið glóandi heitt hraun –og þá skilurðu hvað ég er að fara. Seinni ástæðan fyrir miklum eldgosum hér á landi er sú að Ísland er á svokölluðum heitum reit (sem hér þýðir eitthvað allt annað en netsamband). Vísindamenn telja að heitir reitir myndist út frá möttulstrókum, súlulaga efnismössum sem ná djúpt ofan í jörðina. Undir Íslandi er möttulstrókur sem er kallaður Íslandsstrókurinn. Það er honum að þakka að landið okkar stendur upp úr sjónum, ólíkt öðrum hlutum Atlantshafshryggjarins fyrir norðan og sunnan landið.

Allir íbúar plánetunnar á Vatnajökli?
Vatnajökull er gríðarstór – á því er enginn vafi. En er hann nógu stór til að rúma alla jarðarbúa? Visindavefur.is lagðist í mikla rannsóknarvinnu og raðaði öllum jarðarbúum í lengju, fram og til baka um allan Vatnajökul (auðvitað ekki í alvörunni samt, bara í svona reikningsdæmi). Öll börn og fullorðnir í heiminum, rétt rúmlega sjö milljarðar manns, taka um 3.027,5 km2 rými. Vatnajökull er hins vegar 8.100 km2 – sem þýðir að við kæmumst öll fyrir á jöklinum og vel það. Það er spurning hvort við fjölmennum á jökulinn í sumar og látum reyna á þetta áhugaverða stærðfræðidæmi.

Til að heyra meira um landið okkar skaltu hlusta á þáttinn fyrir ofan. Teiknaða myndin af Íslandi sem fylgir þáttafærslunni er eftir Rán Flygenring.
Hér fyrir neðan er svo hið frábæra lag Eldgos, sem talað er um í þættinum.

aevarth's picture
Ævar Þór Benediktsson
dagskrárgerðarmaður