Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vísindamenn kallaðir frá gosstöðinni

03.09.2014 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Aukinn órói sést á mælum Veðurstofunnar við Dyngjuháls norðan við Vatnajökul. Vísindamenn við gosstöðvarnar í Holuhrauni hafa verið kallaðir af svæðinu að skála í Drekagili. Þar munu þeir halda til þar til frekari upplýsingar berast. Varað er við flóðahættu á svæðinu.

Verið er að senda sms til fólks á svæðinu sem er lokað, þar er eingöngu fólk sem hefur leyfi frá almannavörnum. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að á meðan ekki er vitað hvar óróinn er sé betra að vera ekki á staðnum. Ármann var við mælingar á svæðinu og er í átta manna hópi sem er kominn í skjól í Þorvaldshrauni. 

Fram kom í hádegisfréttum útvarps að þrýstingur í kvikuganginum norðan við Dyngjujökul væri að aukast og breiður og djúpur sigdalur hefði myndast undir jöklinum. 

Í nótt varð skjálfti upp á 5,5 í öskju Bárðarbungu.  Kristín Jónsdóttir jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofunni sagði að sigdalurinn væri eins kílómetra breiður og væri það djúpur að hann kæmi fram í gegnum jökulinn, þannig að hann hafi verið að brjóta jökulsporðinn. Það væri jörðin sjálf sem er að síga, ekki jökullinn.