Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vísindamenn fylgjast grannt með Kötlu

08.07.2014 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Haft hefur verið samband við þá sem sinna ferðaþjónustu í nágrenni Múlakvíslar og Jökulsár á Sólheimasandi, en óvissustigi hefur verið lýst yfir vegna vatnavaxta í ánum. Fólki er bent á að vera með farsíma sína opna, en hægt á að vera að koma skilaboðum í alla farsíma sem fólk er með á svæðinu.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í samtali við fréttastofu RÚV að menn hafi alltaf varann á sér þegar eitthvað er í gangi í Mýrdalsjökli. Nú fari saman að vatnsrennsli hafi aukist og að nokkur grunnskjálftavirkni hafi verið.

Vatnavextir þurfi hins vegar alls ekki að þýða að Katla sjálf sé að gera vart við sig, heldur sé sá árstími þegar vatnsæðakerfi jökulsins nái saman og rennsli geti þá aukist, bæði til austurs og vesturs.

Síðdegis var Landhelgisgæslan fengin til fljúga með vísindamenn yfir Mýrdalsjökul, ekki síst Kötlu, til að kanna hvort og hversu mikið sigkatlar hafa sigið. Katla er mjög vel vöktuð og sagan kennir að Kötlugos og stórhlaup úr Kötlu koma ekki fyrirvaralaust, heldur gerir hún jafnan vart við sig með alvöru skjálftum áður. Ekki hefur borið á neinu slíku núna. 

Vísindamenn Veðurstofunnar segja að hlaupið sé lítið. Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kemur fram að óvissustig almannavarna þýði að aukið eftirlit sé með atburðarás sem gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Fylgst verði vel með framvindu mála.