Vísbendingar um faktúrufölsun þarf að skoða

30.01.2017 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastjós
Vísbendingar komu fram í vinnu starfshóps um fjármagnsflutninga á aflandssvæði sem benda til þess að verð sé skráð rangt í inn og útflutningi. Í því fellst skattaundanskot auk þess sem innflutt vara verður dýrari en ella. Slík mál hafa ítrekað komið upp hér á landi. Gögn eru þó misvísandi að sögn formanns nefndarinnar og því þurfi að leggjast í frekari rannsókn í ljósi sögunnar og þess hve mikið sé í húfi. Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld.

Starfshópur sem falið var að kanna umfang aflandsviðskipta og umsvifa á lágskattasvæðum segir vísbendingar um að - það sem nefnt var Faktúrufölsun í Atómstöð Halldórs Laxness, sé enn við lýði á Íslandi. Upplýsingar og samanburðargögn vanti hins vegar. Því sé nauðsynlegt að rannsaka málið betur enda sé mikið í húfi.

Tvöfalda faktúran

Ólögleg milliverðlagning sem Íslendingar þekkja þó undir ýmsum öðrum nöfnum: Faktúrufölsun, eins og samnefnt félag sem fjallað var um í Atómstöð Halldórs Laxness, eða Hækkun í hafi, sem margir kannast við úr Kaffibaunamálinu svokallaða frá miðjum níunda áratugnum, felur í sér undanskot á skatti og er og hefur verið ólögleg. Hún er gerð með því að skrá rangt verð í inn- eða útflutningi, í hagnaðarskyni. Og oft framkvæmd í viðskiptum milli landa en innan tengdra félaga. Fyrir utan að vera ólögleg og fela í sér undanskot frá sköttum eru afleiðingarnar oft hærra vöruverð innfluttrar vöru.

Okrað á neytendum

Nákvæmlega svona undanskot hafa komið upp hér á landi. Árið 1946 voru 10 af stærstu heildsölum Íslands dæmdir fyrir að stela með þessum hætti undan af innflutningi um allt að 20%, frá því sem eðlilegt var. Í skýrslu Verðlagsráðs sem unnin var og birt árið 1979 var þetta svindl í innflutningi hingað til lands talið valda því að Íslenskir neytendur greiddu 5% prósentum hærra verð en eðlilegt væri.

Hækkun í hafi

Súrálsmálið, svokallaða er þeirra stærst. Árið 1984 komust íslensk stjörnvöld að því að álrisinn Alusuisse hefði í fjölda ára látið álver sitt í Straumsvík greiða óeðlilega hátt verð fyrir hráefni til framleiðslunnar. Afleiðingarnar voru minni hagnaður álversins og þannig skattar. Deila stjórnvalda og álrisans fór fyrir gerðardóm í Hollandi og lauk með því að Alusuisse samþykkti að greiða ríkissjóði sem nemur einum milljarði króna að núvirði í skaðabætur.

Vísbendingar fundust

Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að samanburðaraðferðir sem notaðar eru erlendis til að áætla umfang slíks hér á landi, séu ill nothæfar. Þrátt fyrir gríðarlegt mikilvægi útflutnings hér á landi og fordæmi úr fortíðinni virðist því sem yfirsýn yfir hundruða milljarða útflutning geri mönnum erfitt fyrir að sjá hvort rétt sé gefið. Nauðsynlegt sé að rannsaka það betur.

Þarf að skoða frekar

Þau gögn sem þó eru til gefa þó vísbendingar um að verð sé skráð rangt í inn- og útflutningi í þessu skyni. Ekki sé óvarkártlegt á að áætla að 10% af inn- og útflutningsi sé þar undir og að fjármagn sem komið er undan með slíkum hætti geti numið 120 milljörðum króna á síðustu tuttugu árum.

„Það eru vísbendingar um að þessi munur sé meiri heldur en hann á að vera ef tekið er tillit til kostnaðar. En gögnin eru svolítið mótsagnakennd þannig að við teljum okkur ekki hafa komist til botns í því almennilega,“ sagði Sigurður Ingólfsson, formaður starfshópsins sem vann skýrsluna í Kastljósi í kvöld. 

„Aðalástæðan fyrir því að við þurfum að gera það er að við höfðum ekki tíma og mannafla til þess að grafa almennilega ofan í gögnin. Eins og hefur verið gert margoft alþjóðlega til dæmis fyrir Afríkuríki. Í þessum Afríkulöndum kemur í ljós að fjármagnsflóttinn nemur hærri fjárhæðum en samanlögð erlend fjárfesting inn í landið og öll þróunarhjálp. Þannig að þetta er áhyggjuefni á heimsvísu og fróðlegt að sjá hvernig þetta er hérlendis. Við þekkjum það úr sögunni á Íslandi að þetta hefur verið stundað í miklum mæli hérlendis. Þess vegna er eðlilegt að menn spyrji sig hvort þetta sé hætt. En því er bara ósvarað. Við þyrftum að komast í að greina þessi gögn nánar ef við ætluðum að svara því hvort þetta sé enn ástundað í miklum mæli.”

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi