
Vísbendingar um byggð frá því fyrir landnám
Það var fyrir hreina tilviljun að fornar bæjarrústir fundust í túninu við gamla bæjarstæðið í Stöð. Dr. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, var þá fenginn til að gera umhverfismat vegna ljósleiðara sem var verið að leggja þar yfir túnið.
Viðarkol frá því mjög snemma á 9. öld
Þetta var árið 2003 og ljósleiðarinn var færður þar sem rústirnar greindust í túninu. Fátt gerðist næstu ár á eftir, en í fyrra sömdu nokkrir áhugasamir Stöðfirðingar við Bjarna um að staðfesta hvort þarna væru merkar rústir. Þá gróf hann niður á fornan mannabústað. „Ég tók viðarkolasýni, það var greint til viðartegundar og reyndist birki. Ég sendi það utan til aldursgreiningar og niðurstaðan er að þetta er mjög snemma á níundu öld,“ segir Bjarni
Gæti orðið 10-15 ára löng rannsókn
Hann segir óvíst hvort þarna hafi verið mörg hús. Það sé djúpt niður á elstu byggingar og yngri hús liggi þar ofaná. Ítarleg rannsókn gæti tekið tíu til fimmtán ár. En í sumar sé markmiðið að staðfesta að þarna hafi staðið skáli. „Þá eru allar okkar tilgátur um þennan skála náttúrulega komar á hreint,“ segir Bjarni. „Þá eru önnur hús í nágrenninu og þau myndi ég vilja rannsaka til þess að fá klára mynd á hvað þetta er. Þó þetta sé skáli, þarf þetta ekki að vera bóndabær.“
Landnámsbær eða erlend útstöð frá því fyrir landnám
Bjarni telur tvo möguleika þar helst koma til greina. „Þetta sé hefðbundinn landnámsbær, um það bil á miðri níundu öld, eða að við séum að tala um viðveru manna hérna sem var skrefið strax á undan sjálfu landnáminu,“ segir hann. „Örnefnið Stöðvarfjörður er þar mjög spennandi. Hér heitir bærinn Stöð. Getur það verið vísbending um það að hér hafi verið útstöð frá Skandinavíu, fyrir hið eiginlega landnám, og síðar hafi staðurinn verið byggður bændum?“ segir Bjarni.