Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vísa ekki neinum sendierindrekum úr landi

26.03.2018 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að taka þátt í aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar á gagnnjósnarann Sergei Skripal með því að fresta öllum tvíhliða fundum með rússneskum embættismönnum og með því að senda enga íslenska ráðamenn á heimsmeistaramótið í fótbolta í Rússlandi næsta sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar,“ segir í tilkynningunni. 

Hin fjórðar Norðurlandaþjóðirnar, mörg samstarfsríki Íslands í Atlantshafsbandalaginu, og helstu aðildarríki Evrópusambandsins hafa í dag tilkynnt um brottvísun rússneskra stjórnarerindreka úr landi, sem svar við efnavopnaárásinni. „Af hálfu Íslands felast aðgerðirnar í því að öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verður frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi á komandi sumri,“ segir í tilkynningunni. 

Ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun í dag og bar svo undir utanríkismálanefnd Alþingis. Eftir fund hennar kallaði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Anton Vasiliev, sendiherra Rússlands á sinn fund og greindi honum frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Hér má lesa tilkynningu utanríkisráðuneytis.