Virtur sjóður fjárfestir í Plain Vanilla

Mynd með færslu
 Mynd:

Virtur sjóður fjárfestir í Plain Vanilla

09.11.2013 - 19:05
Bandarískur fjárfestingasjóður sem kom að stofnun fyrirtækja á borð við Apple og Google, hefur sett á aðra milljón bandaríkjadala í íslenska leikjafyrirtækið Plain Vanilla. Sjóðurinn ákvað að fjárfesta rétt áður en nýr leikur var settur á markað síðasta fimmtudag.

Nýr leikur Plain Vanilla heitir Quizup og er spurningaleikur þar sem hægt að keppa á móti hverjum sem er, hvar sem - nánast um hvað sem er. Síðan á fimmtudag hafa 200 þúsund manns náð sér í leikinn. Hann er með þeim vinsælustu í I-tunes, netverslun Apple.
„Það sem virðist hafa gerst er að fólk hafi prófað þennan leik. Viðtökurnar voru frábærlega góðar, en svo virðist fólk vera að sýna vinum sínum og öðrum þannig að vöxturinn hjá okkur er algjörlega í einhverjum veldisvexti núna,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla. Um fjögur leytið mátti sjá þegar milljónasti leikurinn yfir daginn var leikinn.

Quizup hefur vakið áhuga nýrra fjárfesta. Þeir nýjustu eru ekki af verri endanum segir Þorsteinn. „Sequioa er fjárfestingasjóður sem er pínulítið svona hinn heilagi Graal í þessu umhverfi, í þessum Silikon dal þarna úti,“ segir Þorsteinn. Og ekki að ástæðulausu því sjóðurinn hefur komið að stofnun og fjármögnun margra af stærstu og þekktustu tæknifyrirtækja heims á undanförnum árum og áratugum. Þorsteinn segir að stjórnendur hjá sjóðnum hafi að fyrra bragði haft samband við fyrirtækið. „Af því þeir sáu einhverjar prufugáfur af þessu og urðu sannfærðir um að þetta gæti orðið eitthvað stórt og höfðu samband við okkur og vildu endilega setja inn og fá að fjárfesta í okkur áður en við gáfum út leikinn. Sem þeir gerðu og kláruðu sína fjárfestingu bara núna á fimmtudaginn, sama dag og við gáfum út leikinn.“

Sjóðurinn kemur með á aðra milljón dollara inn í fyrirtækið. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er það nú á samtals um tvo milljarða króna. „Þetta gefur okkur tækifæri til að stækka hratt og það er næsta skref. Við sjáum fram á gríðarlegan vöxt hjá okkur, hérna á Íslandi,“ segir Þorsteinn.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Íslenskur leikur leggur Candy Crush