Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Virknin virðist færast í austurátt

19.08.2014 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Enn er öflug skjálftahrina í Bárðarbungu. Vísindamenn hafa setið á fundi í morgun og fylgjast grannt með gangi mála en skjálftarnir virðast færast til norðausturs.

Kristín Vogfjörð, hópstjóri jarðvárhóps á Veðurstofu Íslands, segir að virknin haldi áfram. Í nótt hafi mælst um og yfir 300 skjálftar.

„Það er eins og virknin sé að færast í austur, nær Kverkfjöllum, en hún mælist þó enn á sprungusvæði sem telst til Bárðarbungu,“ segir Kristín. „Virknin mælist á 5-10 kílómetra dýpi. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé að koma gos en ekkert sem bendir heldur til þess að þetta sé að hætta.“

Kristín segir að kvikan virðist hafa færst inn í ganga til austurs og norðausturs. GPS mælingar sýni hvernig kvikan streymi þar upp og gangarnir virðist taka við kvikuþrýstingnum.

Þá segir hún að skjálftavirknin nú sé mun meiri en undanfarin ár: „Undanfarin ár höfum við verið að mæla þetta nokkur hundruð skjálfta en nú er virknin komin upp í 3000 skjálfta svo hún er miklu meiri en við höfum séð áður.“