Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Virkni í rénun en gæti tekið sig aftur upp

02.07.2015 - 09:54
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Mjög hefur dregið úr skjálftavirkni á Reykjaneshrygg í nótt og morgun. Viðbúnaðarstig fyrir flugumferð er þó ennþá gult en Veðurstofa Íslands hækkaði það í gær vegna virkni í eldstöðinnni Eldey. Alltaf er möguleiki á að jarðskjálftavirknin taki sig upp aftur þótt hún sé hugsanlega að fjara út.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í berg- og eldfjallafræði og deildarforseti við Háskóla Íslands. Hann var í Morgunútgáfunni í morgun.

Þorvaldur segir virkni algenga á þessu svæði. Hann telur ástæðu til að fylgjast áfram grannt með og nefnir að sagan sýni að skjálftavirkni á einum stað geti stundum verið fyrirboði um virkni annars staðar. Mörg söguleg dæmi séu um slíkt, til dæmis frá Skaftáreldum árið 1783.

Stundum samspil en ekki beintenging
„Þá byrjaði órói og læti út á Reykjaneshrygg og endaði með gosi og nokkrum vikum seinna byrjaði eldgos í Skaftráreldum,“ segir Þorvaldur. „Það er oft skemmtilegt samspil þarna á milli. Þegar byrjar virkni á einum stað þá virðist oft stökkva til á öðrum." Hann segir þetta þó alls ekki beintengt.

Þorvaldur segir enn sjálfsagt að hafa varann á þar sem meiri jarðskjálftavirkni sé á svæðinu en venjulega. Engin merki séu þó um að eldgos í Elday sé byrjað eða í myndun.

„Ef það verður gos þarna þá getur það orðið sprengigos, myndað ösku- og gosmökk,“ segir Þorvaldur. „Þetta er náttúrulega ekki langt frá Keflavíkurflugvelli, þannig að ef til slíks kemur þá myndi það sennilega hafa einhver áhrif á flugumferð."