Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Virkjun Svartár í uppnámi

22.04.2016 - 08:44
Mynd með færslu
 Mynd: Adam Hoffritz - RÚV
Fyrirhuguð virkjun Svartár er í uppnámi, eftir að verkefnisstjórn rammaáætlunar lagði það til að Skjálfandafljót yrði sett í verndarflokk. Byggingarsvæði virkjunarinnar er innan verndaða svæðisins, en formaður verkefnisstjórnar segir óljóst hvort svo verði áfram.

Svartárvirkjun á að framleiða 9,8 megavött af rafmagni og verður orkan seld beint inn á dreifikerfi landsins. Allar virkjanir undir 10 megavöttum koma ekki til kasta verkefnisstjórnar en eru háðar ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort þær þurfi í umhverfismat. Skipulagsstofnun úrskurðaði fyrr í vetur að framkvæmdin þyrfti í umhverfismat og SSB orka, sem hyggst reisa virkjunina, vinnur nú að því mati. Virkjunin er hins vegar innan þess svæðis sem fellur undir vernd Skjálfandafljóts og segir formaður verkefnisstjórnar það óljóst hvort svo verði í framtíðinni.

„En það þýðir, eins og þetta lítur út núna bara á korti, að þá er þetta svæði allt innan þess svæðis sem verkefnisstjórn leggur til að verði í verndarflokki og eins og lögin hljóma, að þá myndi það þýða að ef það yrði samþykkt að öll orkuvinnsla á því svæði yrði óheimil. En eins og ég segi, það ræðst svolítið af því á hvaða forsendum svæðið er teiknað og þetta er ekkert endilega endanleg niðurstaða, þetta þurfa menn að rýna betur í,“ segir Stefán Gíslason, formaður verkefnisstjórnar. 

Landsvirkjun, sem áformaði að byggja Hrafnabjargarvirkjun í Skjálfandafljóti, teiknaði upp þrjá möguleika, A, B og C. Sá síðasti er raunhæfasti kosturinn, en gerir ekki ráð fyrir því að spilla Svartá. Breyti fyrirtækið áformum sínum, er óvíst hvaða áhrif það hefði.

„Í raun og veru þá breytir það ekki öllu hvort að virkjunaraðilinn leggur fram minna eða meira breyttan virkjunarkost. Hins vegar eru ýmsar flækjur í þessu sem þarf að skoða betur, það er varhugavert að slá einhverju föstu.“