Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Virðist lítil hætta af hlaupi

18.06.2015 - 08:13
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - RÚV
Hlaupið sem hófst í gær í Skaftá er lítið, að sögn vatnamælingamanns hjá Veðurstofu Íslands. Talið er líklegt að það komi úr vestari Skaftárkatlinum sem síðast hljóp úr í janúar 2014. Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofunni fæst það þó ekki staðfest fyrr en með athugun úr flugi yfir katlana.

Rennslið hefur aukist hægt í nótt. Upp úr miðnætti var það um 170 rúmmetrar á sekúndu við Sveinstind, en um um klukkan sex var það 183 rúmmetrar á sekúndu.

Hilmar Hróðmarsson vatnamælingamaður segir Veðurstofuna ekki gera mikið úr þessu. „Þetta er rosalega lítill atburður,“ segir hann. „Við fylgjumst bara með þessu. Ég á ekki von á að það sé nein hætta.“

Slæmt skyggni fyrir athugunarflug
Hilmar segir líklegt að reynt verði að fljúga yfir svæðið í dag. Hann telur veðrið hins vegar ekki mjög hagstætt í slíkt athugunarflug. 

Veðurfræðingur hjá Veðurstofu segir skýjað á svæðinu og eflaust lítið skyggni. Hann segir hlaup úr vestari Skaftárkötlunum yfirleitt lítil og að farvegir taki ágætlega við þeim. Þetta sé líklegast ekki merkilegur atburður þótt einhver gasmengun sé möguleg. 

Fólk ætti að halda sig fjarri
Þrátt fyrir að rennslið sé ekki meira en á góðum sumardegi, er ferðafólki ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir. Sömu sögu er að segja um ferðamenn á jöklinum sjálfum sem eru nærri kötlunum, en sprungur geta myndast án fyrirvara. Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu og getur styrkur efnisins orðið það mikill að hann skaði slímhúð í augum og öndunarvegi.

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV
kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV