Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vínylplötur 10% af tónlistarmarkaðnum

Mynd með færslu
 Mynd:

Vínylplötur 10% af tónlistarmarkaðnum

25.10.2014 - 20:57
Plötusala fer minnkandi en mun þó ekki hverfa, segir framkvæmdastjóri félags hljómplötuframleiðenda. Vínylplötur eru orðnar tíu prósent af tónlistarmarkaðnum. Útlit er fyrir að enginn listamaður nái platínusölu í Bandaríkjunum í fyrsta sinn í áratugi.

Streymi á tónlist er að leysa af hólmi plötusölu og niðurhal. Í Bandaríkjunum hefur plötusala dregist það mikið saman að útlit er fyrir að aðeins ein plata seljist í milljón eintökum þar á þessu ári - lögin úr myndinni Frozen. Enginn nafngreindur listamaður er líklegur til að ná milljón eintaka sölu en streymið er ekki hluti af þessari talningu.

Hér á landi hefur plötusala minnkað um 10-20% á ári undanfarin ár, að sögn Eiðs Arnarssonar framkvæmdastjóra Félags hljómplötuframleiðenda. „En á móti hefur komið mjög aukin neysla á stafrænni tónlist, þ.e.a.s. streymi eða áskrift af tónlistarveitum og bein sala á stafrænni tónlist.“

Þar hefur tilkoma Spotify haft mest að segja, og það hefur breytt neyslunni. „Hlutfallið var þannig að plötusalan var kannski u.þ.b. 80% íslensk en það hefur eiginlega snúist við í tónlistarveitunum þar sem neyslan er 80% erlend,“ segir Eiður.

Eiður segir markaðinn hér hafa verið öfgakenndan undanfarin ár. „Þá hafa komið út sérstaklega þrjár plötur á undanförnum áður sem hafa náð áður óheyrðri sölu, og þá er ég sérstaklega að tala um Mugison, Ásgeir Trausta og Of Monsters and Men, sem allar eru komnar yfir þrjátíu þúsund eintök.“

Þó að plötusala fari minnkandi hverfur hún ekki alveg, segir Eiður. Geisladiskasala hefur vissulega minnkað en sala á vínylplötum fer vaxandi. „Vínylplötusalan er núna orðin 10% af markaðnum, sem er ansi hreint mikið og nokkuð hröð breyting. Fyrir fjórum árum var hún kannski 1-2%.“

Þannig að eru þarna sóknarfæri fyrir plötubúðir sem væru annars deyjandi? „Já, og það hefur sýnt sig að plötubúðir sérstaklega í miðbæ Reykjavíkur sem hafa einbeitt sér að vínylplötusölu hafa bara gert nokkuð vel.“