Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vinstri græn undrast ákvörðun um hvalveiðar

20.02.2019 - 19:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óánægju gætir meðal Vinstri grænna með ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að leyfa hvalveiðar næstu fimm árin. Þingmaður VG hefur óskað eftir að ráðherrann mæti á fund umhverfis- og samgöngunefndar vegna málsins. 

 

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra skrifaði í gær undir reglugerð um að leyfa veiðar á langreyði og hrefnu árin 2019 til 2023. Ákvörðunin byggist á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og hliðsjón var höfð af nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Óhætt er að segja að þessi ákvörðun hafi fallið í grýttan jarðveg hjá umhverfisráðherra og þingmönnum VG. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sagði í samtali við fréttastofu að ákvörðunin væri mikil vonbrigði og hann ekki hafður með í ráðum. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður VG tók málið upp á Alþingi í dag.

„Þessi ákvörðun er þeirri sem hér stendur mikil vonbrigði og spyr mig hverju það þjónar að veita slík leyfi. Vissulega kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar að lítið bendi til þess að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og ímynd Íslands út á við, en það var ekkert samráð haft við ferðaþjónustuna. Og engir útreikningar eru til staðar um það hver áhrifin gætu verið af stórauknum hvalveiðum við Íslandsstrendur, ekki síst á hvalaskoðunarfyrirtækin og ferðaþjónustuna í heild.“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir hefur óskað eftir því að málið verði rætt í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins og ráðherra verði boðaður á þann fund.

„Ég er gríðarlega hissa á þessari ákvörðun og svo virðist sem hún hafi ekki verið tekin út frá þessu heildstæða mati sem var búið að auglýsa eftir af hálfu forsætisráðherra og fleiri ráðherrum í ríkisstjórn, þeirra á meðal umhverfisráðherra, um að það verði litið til heildstæðs mats áður en að tekin væri ákvörðun um að gefa út reglugerð. Ég held að það sé alveg ástæða til að ræða þetta nánar inni í umhverfis- og samgöngunefnd og ég mun bara óska eftir því.“