Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vinstri græn samþykkja stjórnarsáttmálann

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Flokksráð Vinstri hreyfingarinnar græns framboð samþykkti í kvöld stjórnarsáttmála flokksins, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks með 75 atkvæðum gegn fimmtán, þrír skiluðu auðu. Nokkrir félagsmenn sögðu skilið við flokkinn vegna samstarfsins.

Flokksráð Vinstri grænna kom saman til fundar á Grand hóteli í kvöld en hátt í 200 sóttu fundinn samkvæmt tilkynningu. Andrés Ingi og Rósa Björk greindu frá því fyrr í kvöld að þau kæmu ekki til með að samþykkja samninginn.

Miðstjórn Framsóknarflokksins situr enn á fundi og greiðir atkvæði um samninginn síðar í kvöld. Rætt verður við Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins og Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, í tíufréttum sjónvarps. Verði málefnasamningurinn samþykktur á fundi miðstjórnar framsóknarmanna tekur ný ríkisstjórn við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á morgun. Áður en til þess kemur verður haldinn blaðamannafundur formanna flokkanna þar sem málefnasamningurinn verður formlega kynntur og síðan verða ráðherraefni kynnt. Lyklaskipti milli ráðuneyta fara fram á föstudag.