Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Vinsældir ráðherra minnka

01.12.2010 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsmenn eru mun óánægðari með störf ráðherra nú en í mars, þegar viðhorf til ráðherra voru síðast könnuð. Ánægjan er mest með störf menntamálaráðherra, en minnst með störf viðskiptaráðherra.

Vinsældir sex ráðherra hafa minnkað frá því í mars. Tveir auka vinsældir sínar. Mest ánægja ríkir um störf Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra, en minnst um störf Árna Páls Árnasonar viðskiptaráðherra. Ríkisstjórnin eykur fylgi sitt um 6% samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups og nýtur nú stuðnings 36% þjóðarinnar. En flestir ráðherrar njóta þó minni vinsælda nú en í mars þegar Gallup mældi síðast viðhorf almennings til þeirra.

21% ánægð með Jóhönnu

Vinsældir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra minnka enn. Tæplega 21% aðspurðra segjast ánægð með störf hennar, en 63% eru óánægð. 27% sögðust ánægð með hana síðast.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á líka færri stuðningsmenn. 31% eru ánægð með störf hans nú, en 55% óánægð. 41% kváðust ánægð með störf hans í mars.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, er vinsælust ráðherranna, því 32% aðspurðra segjast ánægð með störf hennar. 38% eru óánægð. Í mars voru 44% ánægð með störf hennar.

Hvorki Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra, né Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, voru ráðherrar í síðustu mælingu. Um 25% eru ánægð með störf þeirra, en tæplega helmingur óánægður.

Um 20% eru ánægð með störf Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, og Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, og Jón Bjarnason nýtur stuðnings tæpra 19%. Jón og Svandís eru þau einu sem auka vinsældir sínar frá fyrri könnun. Vinsældir Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, breytast lítið, og eru um 18%.

Fæstir ánægðir með Árna Pál

Árni Páll Árnason viðskiptaráðherra rekur lestina, því 12% segjast ánægð með störf hans, og 65% eru óánægð. 17% aðspurðra sögðust ánægð með störf hans í síðustu könnun.

Í könnuninni í mars reyndust landsmenn ánægðastir með störf utanþingsráðherranna Rögnu Árnadóttur og Gylfa Magnússonar, þau hafa nú bæði látið af ráðherradómi.