Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vinsæl krummafjölskylda á Selfossi

30.05.2018 - 12:42
Innlent · Dýralíf · Fuglalíf · Fuglar · Selfoss · Suðurland
Mynd með færslu
 Mynd: Byko Selfossi/skjáskot
Það er líf og fjör undir þakskeggi á byggingu Byko á Selfossi því þar eru fimm hrafnsungar í laupi. Þetta er fimmta árið í röð sem krummi gerir laup á þessum stað. Gunnar Bjarki Rúnarsson, verslunarstjóri, segir ekki alveg ljóst hvort sama hrafnaparið komi ár eftir ár eða hvort afkomendur eldri hrafna sem þar hafi verið venji komur sínar þangað.

Sýnt er beint frá laupnum á vef Byko. Einnig var sýnt frá honum í fyrra en í ár hefur verið útsending alveg frá því hrafnaparið hóf hreiðurgerð í febrúar. Fjöldi fólks fylgist með lífi krummafjölskyldunnar, þar á meðal er hópur áhugafólks um hrafna og laupa frá Þýskalandi.

Yfirleitt hefur ungunum í Byko gengið vel að læra að fljúga á vorin og þá fljúga þeir úr laupnum og koma aldrei þangað aftur. Í fyrra gekk það hægar og ungarnir lentu þá í vandræðum og duttu á bílaplan við verslunina. „Þetta tók nærri tvær vikur í fyrra en árin áður hafa þeir bara flogið úr laupnum og við svo hreinsað til,“ segir Gunnar. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir