Vinnustaðurinn Alþingi orðið fyrir áfalli

30.11.2018 - 16:31
Mynd: rúv / rúv
Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur segir að illt umtal eins og Klausturupptökurnar opinberi sé áfall fyrir allan vinnustaðinn Alþingi. Búast megi við að það hafi slæm og hamlandi áhrif á störf þess.  

Samstarf á vinnustað byggist á samvinnu og trausti

Þórkatla starfar hjá sálfræðistofunni Lífi og sál sem hefur fjallað um sálfélagslega áhættuþætti á vinnustöðum.  Hún segir að það hafi auðvitað mjög slæm áhrif á samskipti og samvinnu á vinnustað þegar svona lagað kemur upp. „Af því að öll samskipti og þar með öll samvinna byggist á gagnkvæmu trausti og gagnkvæmri virðingu. Og að fá innsýn í sjónarmið vinnufélaga sem eru svona neikvæð í minn garð eða einhvers annars hefur auðvitað þau áhrif að það bakkar bara til þess að verja sig hreinlega. Þetta er svo vont, þetta er svo sárt að fá svona neikvæðar umsagnir um sig og verið að gera grín að og tala niður til.“

Getur haft hamlandi áhrif á störf alþingismanna

Það hafi slæm áhrif á alla vinnustaði þegar svona gerist. Ekki sé ljóst hve mikil áhrif þetta eigi eftir að hafa á störf Alþingis. Þingmenn þurfi að vinna náið saman og þegar svona kemur upp hafi það hamlandi áhrif á störfin.  

„Ég býst ekki við að þeir sem var talað illa um og niður til þetta kvöld hafi mikla löngun til að vinna með fólki sem þarna var að ræða saman, eðlilega. Ég meina, ef maður setur sig í þau spor, og jafnvel hefur þetta víðtækari áhrif líka út fyrir þennan hóp sem verið er að tala um því þá hugsa aðrir „hvað er sagt um mig, borgar sig fyrir mig að vera í samskiptum þarna vegna þess að hverju get ég lent í.“ 

Tortryggni og vantraust vaxi á vinnustaðnum, einnig kvíði fyrir samskiptum og þetta allt eitri andrúmsloftið þar.  

Kallar á vangaveltur um heilindi alþingismanna

Þingmennirnir sem rætt er um, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, sem kjörnir voru á þing fyrir Flokk fólksins, hafa komið fram á annan hátt hingað til.

Þórkatla segir að hún velti auðvitað vöngum, eins og margir aðrir, um hvort þeir séu að leika leikrit. „Hvort það sé ekki heilt í því sem það er að gera og það auðvitað slær mann illa. Er bara verið að ganga í augun á okkur kjósendum og er engin alvara að baki? Og það er það sem er auðvitað líka mjög sorglegt í þessu. Getum við treyst því að fólk sé þarna að vinna störf sín af heilindum? [...] Ég býst við að mikill meirihluti þingmanna sé að því en þarna virðast vera einhverjir sem skortir heilindi.“

Áfall fyrir alla sem vinna á Alþingi 

Þórkatla segir að það góða við svona áföll sé að hægt er að bæta ástandið. „Og ég kalla þetta áfall vegna þess að ég held að vinnustaðurinn hjóti að upplifa þetta sem, eða starfsfólk þar, sem áfall. Við tengjumst mjög vinnustaðnum okkar. Við höfum þörf fyrir að bera virðingu fyrir vinnustaðnum og vinnufélögum og þegar hoggið er í það tökum við það nærri okkur. Það góða við það er að það er engin leið nema upp. Það er hægt að gera auðvitað heilmargt og þetta er mjög lærdómsríkt fyrir vinnustaðinn líka af því að það eru tækifæri til að gera mikið betur.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi