Vinnustaðasálfæðingur aðstoðar Pírata

29.02.2016 - 21:24
Mynd með færslu
 Mynd: Píratar
Þingmenn Pírata ætla að vinna úr samstarfsörðugleikum sínum með aðstoð vinnustaðasálfræðings. Í tilkynningu sem þingflokkurinn sendi frá sér í kvöld segir að álag á fáa kjörna fulltrúa Pírata hafi margfaldast á sama tíma og fylgi þeirra hafi aukist ört.

„Við þingmenn Pírata höfum, eins og oft vill verða undir miklu álagi, átt í samskiptaörðugleikum. En við erum þrátt fyrir allt lausnamiðað fólk og höfum því hafist handa við að vinna úr þessum örðugleikum undir handleiðslu vinnustaðasálfræðings“, segir í tilkynningu.  Þá segir að samhugur sé um að leysa innri ágreining á sem farsælastan hátt og þess vegna hafi verið ákveðið að fara þessa leið. 

„Hún hefur þegar borið mikinn árangur á skömmum tíma. Málsstaður okkar og stefnumál eru stærri en hvert okkar. Við erum miklu sterkari sameinuð heldur en sundruð og við í þingflokki Pírata teljum okkur koma sterkari og samheldnari út úr þessu heldur en nokkru sinni fyrr.“

 

Undir tilkynninguna skrifa Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Helgi hrafn Gunnarsson. 

 

Rakel Þorbergsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi