Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vinnumálastofnun í viðbragðsstöðu vegna WOW

28.03.2019 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Vinnumálastofnun hefur virkjað viðbraðgsteymi og helsta forgangsmálið er að þjónusta starfsfólk WOW air sem misst hefur vinnu sína. Um ellefu hundruð manns störfuðu hjá fyrirtækinu. Auk þeirra er fyrirséð að fólki sem starfað hefur hjá fyrirtækjum sem þjónustuðu WOW air verði sagt upp. 

Vakin er athygli á því á vefsíðu stofnunarinnar að starfsfólk WOW geti sótt um atvinnuleysisbætur. Áætlað er að afgreiðsla umsókna taki fjórar til sex vikur eftir að öll gögn hafa borist. Fólk er hvatt til að hefja umsóknarferli sem fyrst. Verði WOW air tekið til gjaldþrotaskipta þurfi starfsfólk að hafa samband við stéttarfélag sitt eða lögmann og fá aðstoð við að lýsa kröfu í væntanlegt bú.

Ekki verður greitt úr Ábyrgðarsjóði launa fyrr en í fyrsta lagi eftir að kröfu hefur verið lýst og skiptastjóri hefur samþykkt kröfuna. Á morgun, föstudag, er starfsfólki WOW air sem þarfnast frekari upplýsinga boðið á þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar á milli klukkan 13 og 16.

Óttast að á milli 1.000 og 2.000 manns missti vinnuna strax

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að stofnunin hafi ekki fengið endanlega tölu á fjölda starfsmanna WOW air staðfesta. „Við höfum fengið það uppgefið að það séu um 1100 manns sem starfi hjá WOW á þessari stundu en þetta er ekki staðfest tala.“

Hún segist auk þess ekki vita hve margir sem starfað hafa hjá fyrirtækjum sem þjónusta WOW missi vinnu sína. „Það er náttúrulega ekki alveg ljóst á þessari stundu en það lítur ekki vel út, við áttum okkur á því. Það eru ansi mörg afleidd störf sem að fylgja WOW þannig að við getum alveg verið að tala um allt upp í, ég þori varla að segja tölu, en allt á milli eitt til tvö þúsund manns plús sem missa vinnuna strax.“

Vinnumálastofnun sé í nánu sambandi við stéttarfélögin í gegnum Alþýðusamband Íslands. „Flugfreyjufélögin og fleiri, til þess að koma á framfæri upplýsingum um hvernig best er fyrir fólk að snúa sér bæði gagnvart atvinnuleysistryggingasjóði og svo ef þetta fer í gjaldþrot þá er það ábyrgðarsjóður launa, en það er seinni tíma músík.“

Auka þjónustuna á Suðurnesjum

Hildur Jakobína Gísladóttir, forstöðumaður þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, segir ekki ljóst hve margir í afleiddum störfum á Suðurnesjum eigi eftir að verða atvinnulausir vegna stöðvunar á rekstri WOW air. Staðan sé mjög óljós en að það skýrist væntanlega að einhverju leyti um næstu mánaðamót hve mörg fyrirtæki segi fólki upp. „Við erum undirbúin og bæði með plan a og b. Við hérna innanhúss reynum að skipta með okkur verkum og auka þjónustuna okkar,“ segir hún. 

Atvinnuleysi hafði þegar aukist vegna samdráttar

„Maður er sleginn og við erum að skoða hvaða áhrif þetta hefur hjá okkur,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum. Atvinnulausum á Suðurnesjum fjölgaði töluvert á milli ára sé miðað við lok janúar 2018 og 2019 vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Atvinnuleysi á Suðurnesjum var 5,4 prósent í lok janúar. Til samanburðar var atvinnuleysið 2,2 prósent á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma.

Berglind segir óljóst hve margir í afleiddum störfum missa vinnuna vegna rekstrarstöðvunar WOW air. „Við erum að reyna að hlera hjá okkar fólki hvernig staðan er.“ Hún bendir á að þumalputtareglan sé sú að fyrir hverja milljón farþega verði til þúsund störf. WOW air flutti 3,5 milljónir farþega í fyrra. Sé miðað við þessa reglu gætu 3.500 manns sem sinna störfum sem fela í sér beina þjónustu við WOW air misst starf sitt. Hún segir að fjöldinn gæti verið meiri séu afleidd störf svo sem á hótelum og bílaleigum tekin með í dæmið. Nú sé reynt að kortleggja stöðuna. Vonast sé til að önnur flugfélög fylli upp í það tómarúm sem WOW air skilur eftir sig og að höggið verði minna þannig að svörtustu spár rætist ekki.

Sambandið stefnir að því að funda í næstu viku með bæjarstjórum og þingmönnum á Suðurnesjum vegna stöðunnar.