Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vinna minna en afkasta meira

06.02.2018 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: Husmiðjan - Hugsmiðjan
Framleiðni í Hugsmiðjunni jókst þegar vinnutími starfsfólksins var styttur. Starfsfólkið afkastar jafnmiklu á sex tímum og það gerði áður á átta. Margeir Steinar Ingólfsson stjórnarformaður Hugsmiðjunnar segir að þrátt fyrir færri vinnustundir hafi tekjur fyrirtækisins aukist. 

Hugsmiðjan er þekkingarfyrirtæki sem sinnir hugbúnaðargerð, markaðssetningu, hugmyndavinnu o.fl. Margeir Steinar Ingólfsson, hluthafi og stjórnarformaður Hugsmiðjunnar segir að hér á landi sé fólk oft hreykið af því að vinna mikið en í raun fylgi mikilli vinnu alls kyns álagstengd veikindi. Fólk sé stressaðra, samskipti verri og fólk sofi verr. Börn eru sótt á leikskólann á hlaupum, minni tími er með fjölskyldunni og svo framvegis. Álagið geti verið ávísun á þunglyndi og kvíða sem Íslendingar glími nú við í auknum mæli. 

Vinna sex klukkutíma á dag

Fyrir tveimur árum var ákveðið að stytta vinnutímann í Hugsmiðjunni úr 8 klukkustundum í 6 í tilraunaskyni. Tuttugu og fimm til þrjátíu vinna í fyrirtækinu og er unnið frá 9 til klukkan hálf fjögur og fer hálftími í hádegismat. Til að byrja með voru efasemdarraddir en ákveðið var að slá til í tvö ár. Lögð var áhersla á að allir tækju þátt. Gerður var einfaldur samningur við starfsfólkið um styttri vinnutíma en sömu laun.

Framleiðni jókst í fyrirtækinu 

Margeir segir að eftir breytinguna hafi framleiðni og sala aukist. Veikindadögum fækkaði mjög mikið og starfsfólkið var ánægðara. 

Framleiðnin jókst um 23%, veikindadögum fækkaði um 44% og ánægja starfsmanna jókst um hundrað prósent. 

Með færri vinnutímum gafst starfsfólki aukið rými fyrir hreyfingu og áhugamál, sem hafði góð áhrif á heilsu þess og líðan. Það hafði meiri tíma til að lesa og fara á námskeið og svo framvegis. 

Margeir segir að ekki sé lengur um tilraun að ræða heldur hafi styttri vinnutími verið formlega tekinn upp hjá Hugsmiðjunni.