Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vinir og ættingjar halda utan um auð Pútíns

26.10.2017 - 06:48
epa06280575 Russian President Vladimir Putin waves to participants of the 19th World Festival of Youth and Students during the official closing ceremony in Sochi's Olympic Park in Sochi, Russia, 21 October 2017. Taking part in the forum would be more
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Samanlögð verðmæti fólks úr innsta hring Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta er um 2.500 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn rússneska dagblaðsins Novaya Gazeta og OCCRP sem helgar sig birtingu frétta af skipulagðri glæpastarfsemi og spillingu.

Pútín hefur alltaf þrætt fyrir að vera forríkur og voru laun hans opinberlega sögð nema um 14 milljónum allt árið í fyrra. Í rannsókninni er hann sagður flytja eignir sínar yfir á vini sína, í það minnsta á meðan hann gegnir embætti forseta. Vakið hefur athygli að fólk úr innsta hring Pútíns hefur safnað miklum auð að sér. Samkvæmt rannsókninni geta fæstir þeirra gefið skýringu á því hvaðan auðurinn kemur. Að sögn rannsakenda gæti skýringin verið sú að þetta séu í raun auðæfi Pútíns.

Eitt skyldmenna Pútíns sem tekið er fyrir í rannsókninni, Mikhail Shelomov, vinnur við skipaútgerð. Launin fyrir störf hans þar ættu að vera um 900 þúsund krónur á ári. Shelomov er þrátt fyrir það einn stærstu fjárfesta í nýrri kappakstursbraut í St. Pétursborg. Samkvæmt rannsókninni eru persónuleg verðmæti hans metin á yfir 60 milljarða króna.

Viðskiptabann Bandaríkjanna við Rússland nær ekki til Shelomovs. Hann lætur lítið fyrir sér fara, svo lítið að rannsakendum tókst ekki einu sinni að finna mynd af honum til að birta á heimasíðu OCCRP. Fyrrverandi slátrarinn, og æskuvinur Pútíns, Pyotr Kolbin, er hins vegar í viðskiptabanni. Auðæfi hans eru metin á rétt innan við 60 milljarða króna.

Að sögn breska dagblaðsins Independent fer lítið fyrir rannsókninni í rússneskum fjölmiðlum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV