Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vinaliðar passa að enginn verði út undan

18.10.2018 - 21:43
Fjöldi grunnskóla hefur tekið upp fyrirkomulag þar sem hópur krakka er valinn til að tryggja að engum leiðist eða sé skilinn út undan í frímínútum. Verkefnið nefnist Vinaliðar hefur reynst vel í Egilsstaðaskóla og dregið úr stríðni og einelti.

Bjallan hringir, frímínútur eru að byrja í Egilsstaðaskóla og vinaliðarnir gera sig klára. Það eru nemendur sjálfir sem kjósa vinaliða, stráka og stelpur til jafns, í 4. til 7. bekk. Þau stýra leikjum, hvetja aðra til að vera með og láta einnig vita af einelti eða útilokun.

Helgi Magnús Gunnlaugsson, vinaliði í 5. bekk Egilsstaðaskóla segir að þeir séu helst kosnir sem séu góðir. „Og þeir sem aðrir bekkjarfélagar treysta til að leyfa öðrum að vera með. Þetta er bara gott fyrir aðra, svo þeim líði ekki illa í skólanum, svo þeir fái að gera eitthvað annað en bara að vera einir,“ segir Helgi Magnús.

Rannsóknir hafa sýnt að skólalóðin og frímínútur eru einn helsti vettvangur eineltis og aðgerðarleysi eykur hættu á stríðni. Sigurbjörg Óskarsdóttir skólaliði merkir breytingu eftir að vinaliðarnir komu til. „Mér finnst þetta bara mjög góð lausn, að hafa þetta svona í frímínútum. Ég er búin að vera hérna í nokkur ár og maður sér alveg breytinguna. Þegar vinaliðaverkefnið er í gangi þá eru krakkarnir oftast nær rólegri,“ segir Sigurbjörg.

Sigríður Baxter stýrir vinaliðaverkefninu í Egilsstaðaskóla. Hún segir að krakkarnir sem stýri vinaliðunum fái heilmikið út úr því ekki síður en hinir.  „Ég myndi segja að þeir krakkar sem eru vinafáir séu minna áberandi þar sem þau geta farið alls staðar inn í hópa og leikið sér. Verkefnið hjálpar þessum krökkum að finna sér eitthvað að gera og einelti verður bara alls ekki sýnilegt. Hvort sem þú ert vinafár eða mjög vinsæll þá eru bara allir jafnir og þetta eru leikir sem allir geta tekið þátt í og yfirleitt finnst öllum mjög skemmtilegt. Þar af leiðandi myndi ég segja að þetta væri mjög jákvætt inn í alla skóla. Engum leiðist og enginn er einn,“ segir Sigríður.

Á heimasíðunni vinalidar.is má kynna sér verkefnið

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV