Vín veitt á Hrafnistu í Hafnarfirði

Mynd með færslu
 Mynd:
Hrafnista í Hafnarfirði hefur fengið vínveitingaleyfi á kaffihúsi sínu, Kaffihorninu, frá og með deginum í dag. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri kaupir fyrsta rauðvínsglasið, segir í tilkynningu.

Magnús Margeirsson, forstöðumaður Kaffihornsins, segir að í boði verði bjór, hvítvín, rauðvín og aðrir léttir drykkir sem vinsælir séu með kaffi.

Rúmt ár er liðið frá því Hrafnista í Reykjavík fékk vínveitingaleyfi.   Magnús segir aðspurður að mikil eftirspurn hafi verið eftir þessu á Hrafnistu í Hafnarfirði í ljósi þess hversu góð reynsla væri af vínveitingaleyfinu á hjúkrunarheimilinu í Reykjavík. Barinn á Hrafnistu í Reykjavík sé vel sóttur. „Aðsóknin hefur verið vonum framar og mikil ánægja með þetta þar,“ segir Magnús. 

Magnús segir að auk áfengra drykkja verði á kaffihúsinu hægt að fá veitingar sem fólk á að venjast á öðrum kaffihúsum. 

Kaffihúsinu er lokað klukkan átta á kvöldin en kvöldverðartími á Hrafnistu er klukkan sex. Aðspurður hvort þá verði happy hour á kaffihúsinu segir Magnús: „Alltaf happy hour eftir kvöldmat, einn fyrir svefninn.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi