Viltu skaðlegan óþarfa í jólagjöf ?

Mynd með færslu
 Mynd:

Viltu skaðlegan óþarfa í jólagjöf ?

08.12.2014 - 16:10
Í aðdraganda jólanna er ekki verra að vita hvernig hægt er að láta fara saman vellíðan, fjárhagslegan sparnað og umhverfislegan ábata. Stefán Gíslason fjallar um það í pistli dagsins

Pistill Stefáns - Jól framundan

Sjaldan gefast betri tækifæri til úrbóta í umhverfismálum heimila en einmitt á jólaföstunni. Jólin hafa nefnilega þróast í að vera neysluhátíð. Það er gott fyrir hagvöxtinn eins og hann er skilgreindur, en ekki að sama skapi gott fyrir okkur sjálf og fyrir náttúruna. Óþörf neysla eykur ekki lífsgæðin. Á jólaföstunni og á jólunum er auðvelt að sameina vellíðan, fjárhagslegan sparnað og umhverfislegan ábata. Maður þarf bara að átta sig á að þessi þættir fara saman, og þá ekki bara um jólin, heldur alltaf.

Eitt af því sem skiptir máli bæði fyrir umhverfið og eigin fjárhag er það hvernig jólagjafir eru valdar. Óþarfi er nefnilega ein versta jólagjöf sem nokkur getur fengið. Sumir gefa sjálfsagt aldrei neinn óþarfa, en samt grunar mig að sum heimili landsins séu hálffull af gjöfum sem heimilisfólkið hefur fengið á síðustu árum, án þess að hafa svo sem nokkuð með þær að gera. Þetta geta t.d. verið alls konar styttur, kertastjakar, ilmkerti, skraut og jafnvel leikföng og snyrtivörur. Þetta er svo sem allt saman ágætt, en bara ef viðtakandinn hefur haft einhverja ánægju af því umfram þá skammvinnu tilhlökkun sem fylgdi því að opna pakkann á sínum tíma.

Sérhver jólagjöf á sér sína sögu, sem er að mestu leyti ósýnileg bæði þeim sem gefur og þeim sem þiggur. Einhvers staðar var þessi gjöf framleidd og til þess þurfti bæði hráefni, orku og vatn. Þau gæði eru víða af skornum skammti. Kannski er mér alveg sama um það þar sem ég sit í miðri pakkahrúgunni, en þetta getur samt þýtt að barnabörnin mín eða barnabarnabörnin geti aldrei fengið svona gjöf, jafnvel þó að þau þyrftu á henni að halda í þeim veruleika sem þau þurfa að kljást við þegar þar að kemur.

Nú má ekki skilja orð mín svo að mér finnist fólk eiga að hætta að gefa hvert öðru jólagjafir. Hins vegar er full ástæða til að velja jólagjafirnar af kostgæfni og hætta að gefa gjafir sem þiggjandinn mun líklega aldrei nota, gjafir sem eru hugsanlega skaðlegar fyrir heilsu þiggjandans eða gjafir sem hafa skilið eftir sig sviðna jörð þar sem þær voru framleiddar, hvort sem það er í umhverfislegu eða félagslegu tilliti. Þessar gjafir flokkast sem óþarfi og eru því ekki góðar gjafir.

Það er ekki auðvelt að gefa uppskrift að hinni fullkomnu jólagjöf í útvarpspistli. En ef ætlunin er t.d. að gefa einhverja flík, þá mætti hún gjarnan vera merkt með Norræna svaninum, Umhverfismerki Evrópusambandsins eða alþjóðlega Fairtrade merkinu, vera úr lífrænt vottaðri bómull, eða alla vega með Ökotex-merkinu. Flík með einhverjum þessara merkja á sér að öllum líkindum geðslegri ævisögu en flestar aðrar flíkur. Ef málið snýst um barnaföt með upphleyptum myndum er sérstök ástæða til að vera á varðbergi, því að svoleiðis myndir innihalda stundum þalöt sem geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Truflun á hormónastarfsemi er náttúrulega afleit jólagjöf. Já, og ef hugmyndin er að gefa barninu á heimilinu skó væri upplagt að sniðganga þessa með blikkandi ljósunum. Í svoleiðis skóm eru rafhlöður sem eiga það til að sleppa út í umhverfið þegar ævidögum skónna lýkur. Sama gildir um bækur og kort sem spila lagstúf þegar þau eru opnuð.

Ef ætlunin er að gefa snyrtivörur getur verið gott að taka lesgleraugun með sér í búðina til að geta stautað sig fram úr innhaldslýsingunni. Á henni ætti t.d. hvergi að koma fyrir orðið paraben og heldur ekki neitt sem bendir til að varan innihaldi plastagnir, þ.e.a.s. svokallað míkróplast. Ef orð á borð við Microspheres, Micro-beads, eða Microcrystals koma fyrir á umbúðunum er best að setja eitthvað annað í pakkann. Sama gildir ef þarna leynast orðin „poly“ eða „polýetýlen“ eða skammstafanirnar „PE“ eða „PET“. Míkróplastið í snyrtivörunum gerir okkur sjálfsagt ekkert til þegar við mökum því á okkur, en það skolast niður um niðurfallið í sturtunni við næsta tækifæri, sleppur í gegnum fráveitukerfið eins og ekkert sé og velkist síðan um hafið næstu áratugi og aldir til armæðu og tjóns fyrir lífríkið. Einfaldasta leiðin til að velja snyrtivörur í jólapakkann er að kaupa Svansmerktar vörur, en úrvalið af þeim vex jafnt og þétt. Og maður þarf ekki nærri eins sterk lesgleraugu til að sjá Svansmerkið eins og til að rýna í innihaldslýsinguna.

Rétt eins og jólagjafir eru kertaljós hluti af því notalega andrúmslofti sem flestir tengja við jólin. En kerti eru ekki bara kerti, því að þau geta átt sér gjörólíka ferilskrá.

Kerti eru yfirleitt annað hvort búin til úr parafíni eða úr dýra- eða plöntufitu. Parafín er dæmigerð jarðolíuafurð og þegar parafínkertum, eða olíukertum eins og ég kýs að kalla þau, er brennt er gróðurhúsalofttegundum sleppt út í andrúmsloftið. Brennslunni fylgir líka sótmengun sem getur verið afar óholl fyrir þá sem una sér lengi við kertaljós í lítt loftræstum vistarverum. Olíukerti geta aldrei verið umhverfisvæn. Hins vegar eru kerti úr dýra- eða plöntufitu almennt mun ákjósanlegri bæði fyrir umhverfi og heilsu, þó að uppruni þeirra sé reyndar líka misjafn. Í þennan flokk falla kerti úr sojavaxi, býflugnavaxi og jafnvel tólg, svo eitthað sé nefnt. Algengasta hráefnið er þó stearín, sem er blanda af þremur mismunandi fitusýrum úr lífríkinu. Reyndar er stearín ekki bara stearín, því að í sumum tilvikum er það framleitt úr pálmaolíu, sem er fengin úr pálmatrjám sem ræktuð hafa verið á svæðum þar sem áður voru regnskógar. Besta leiðin til að þekkja „gott stearín“ frá „vondu stearíni“, ef svo má að orði komast, er að kaupa Svansmerkt kerti. Til þess að kerti fái Svansvottun þurfa a.m.k. 90% hráefnanna að vera endurnýjanleg, sem þýðir m.a. að kerti úr parafíni geta ekki fengið vottun. Ilmefni eru ekki leyfð í Svansmerktum kertum, þar sem þau geta verið ofnæmisvaldandi og kertin þurfa einnig að standast kröfur um hámarks sótmengun. Svo þarf framleiðandi kertanna líka að sýna fram á að hráefnið sé ekki fengið úr skóglendi sem njóta ætti verndar.

Kerti úr stearíni hafa þá kosti umfram kerti úr parafíni að þau ósa ekki, sóta ekki, renna ekki niður og bogna ekki. Svansmerktu kertin er því ekki bara betri fyrir umhverfið. Gæðin eru líka meiri þegar til kastanna kemur.

Svona rétt í lokin er rétt að minna á að það skiptir máli hvers konar jólapappír er notaður utan um gjafirnar. Jólapappír er í eðli sínu einnota fyrirbæri, þ.e.a.s. ef hann er notaður eins og flest okkar hafa líklega vanið sig á. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að á hverju ári nota Íslendingar um 3.000-4.000 kílómetra af jólapappír, sem samanlagt gæti vegið hátt í 50 tonn. Það er mikil sóun að henda þessu öllu í ruslið, sérstaklega þegar hugsað er um allt vatnið, orkuna og efnið sem vel hefði mátt spara. Ein leið til að draga úr þessari sóun er að taka sér góðan tíma í að ná pappírnum sem heillegustum utan af gjöfunum og nota hann svo aftur á næstu jólum. Í þessu felst líka tækifæri til að hægja aðeins á aðfangadagskvöldinu og njóta þess þannig enn betur en ella.

Markmið jólaundirbúningsins mætti gjarnan vera að gera jólin efnisminni en í fyrra. Óþarfi er bara til leiðinda – og svo tekur líka heillangan tíma að vinna fyrir honum. Þann tíma hefði verið hægt að nota í skemmtilegar samverustundir. Sérhver óþarfi sem við kaupum fækkar þeim stundum eða styttir þær. Líf okkar sjálfra er óendurnýjanleg auðlind sem við þurfum að fara vel með.

Þeir sem vilja skoða umhverfisþætti jólahaldsins enn betur ættu að líta við á heimasíðu Umhverfisstofnunar, ust.is, en þar er að finna fjöldan allan af góðum ráðum um græn jól.