Vill virkja siðanefnd út af Klaustursmálinu

30.11.2018 - 09:06
Mynd: Hreiðar Þór Björnsson / RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, telur einboðið að sérstök siðanefnd verði virkjuð í fyrsta sinn til að kanna hvort þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins hafi brotið siðareglur með ummælum sínum á upptöku af samtali þeirra á barnum Klaustri fyrr í mánuðinum. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, telur að afleiðingar verði af Klausturmálinu. Þessir þingmenn hljóti að þurfa að velta fyrir sér hvort hægt sé að taka þá alvarlega í framtíðinni.

Kolbeinn segir að þingmenn hafi samþykkt siðareglur sem eigi að halda í heiðri. Einboðið sé að málið verði tekið alvarlega. „Fólk sem talar svona um annað fólk, og sérstaklega konur, á milli þess sem það er að berja sér á brjóst fyrir að vera jafnvel í fylkingarbrjósti fyrir því að berjast fyrir jafnrétti og auknum rétti kvenna. Það hlýtur nú aðeins að fara að horfa í eigin barm og velta fyrir sér hvort það sé mikið hægt að taka þetta fólk alvarlega í framtíðinni,“ sagði Kolbeinn á Morgunvaktinni í morgun um upptöku sem birt var á Stundinni í fyrradag þar sem heyra má þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins tala með rætnum hætti um ýmsar þingkonur og fleiri. 

Þórhildur Sunna vonast til þess að utanaðkomandi siðanefnd verði virkjuð í fyrsta sinn en hún getur tekið til meðferðar mál sem koma fyrir forsætisnefnd og tengjast siðareglunum. Forsætisnefnd tekur málið fyrir á fundi á mánudag. „Mér þykir einboðið í aðstæðum sem þessum, þar sem þetta er svona nátengt fólkinu sem situr í forsætisnefnd, að það hljóti að vísa þessu til siðanefndarinnar. Vegna þess að öðruvísi getum við ekki komist að, að ég held, óumdeildri eða minna umdeildri niðurstöðu á því hvort brot á siðareglum hafi átt sér stað.“ 

„Súrrealísk“ stemning á Bessastöðum

Kolbeinn og Þórhildur Sunna voru bæði í veislu forseta Íslands á Bessastöðum í gærkvöld þar sem fagnað var því að á morgun verða 100 ár frá því Ísland varð fullvalda ríki. Kolbeinn segir að mikið hafi verið pískrað í veislunni og margir hefðu sýnt þeim konum sem talað var illa um stuðning. „Og svo sátu einhverjir sem voru á upptökunum í miðjum salnum. Þetta var dálítið súrrealískt sannast sagna að horfa á en fínasta veisla hjá forsetanum. Það er ekki upp á hann að klaga.“ 

Sá sem brotið er gegn eigi ekki að þurfa að víkja

Þórhildur Sunna velti fyrir sér á Morgunvaktinni hvernig hægt væri að ætlast til þess að þær þingkonur sem þingmennirnir töluðu svo illa um vinni áfram með þeim eins og ekkert hefði í skorist. Hún segir að sér hafi þótt mikilvægt að mæta á Bessastaði til að sýna konunum samstöðu. „Almennt finnst mér það góð regla að ef einstaklingur brýtur á öðrum einstaklingi að þá eigi sá sem brotið var á ekki að þurfa að víkja eða haga sínum ferðum eitthvað öðruvísi.“
Í þessum anda hafi nokkur hópur þingmanna farið á Klausturbar eftir veisluna. 

Vill að ríkissaksóknari taki málið upp

„Þótt að kvenfyrirlitningin hafi verið alger og viðbjóðsleg í þessum samtölum að þá finnst mér að það megi ekki gleymast að þarna er líka talað um skýrt brot á almennum hegningarlögum,“ segir Þórhildur Sunna. „Þarna er talað um spillingu og það eru tveir menn sem ræða hana, báðir fyrrverandi ráðherrar, annar þeirra var utanríkisráðherra og hann er að tala um kaup kaups fyrir skipun í sendiherrastöðu og þetta staðfestir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Afleiðingarnar af því ættu að sjálfsögðu að vera að ríkissaksóknari taki þetta mál upp. Það finnst mér alveg augljóst. Hér erum við með játningu á upptöku, sem má nálgast á vef Stundarinnar, bendi ég ríkissaksóknara á, og staðfestingu á því.“ 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, gefur í skyn á upptökunni að hann eiga inni greiða hjá Sjálfstæðismönnum fyrir að skipa Geir H. Haarde sendiherra árið 2014. Hann bar þetta til baka í samtölum við fjölmiðla í gær. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í 22 fréttum í gær að Gunnar Bragi eigi ekki inni greiða hjá Sjálfstæðismönnum fyrir að skipa Geir sendiherra.

Í spilaranum hér fyrir ofan er hægt að hlusta á allt viðtal Óðins Jónssonar og Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur við þau Kolbein og Þórhildi Sunnu á Morgunvaktinni. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi