Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill vinna að upptöku evru með aðild að ESB

13.10.2018 - 15:31
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi í dag, að ef Samfylkingin kæmist í stjórnarráðið á morgun myndi hún koma á réttlátari skattbyrði til að draga úr vaxandi ójöfnuði og bæta þannig stöðu aldraðra, öryrkja og almenns launafólks. Þá myndi hún vinna að upptöku evru með aðild að Evrópusambandinu og rétta hlut unga fólksins.

Logi sagði þjóðarskútuna vera komna á réttan kjöl og að átök íslenskra stjórnmála næstu árin myndu snúast um hvert skyldi halda.  Samkvæmt síðustu könnun MMR mælist Samfylkingin nú með 16,7 prósenta fylgi og væri samkvæmt því næststærsti flokkurinn á þingi.

Logi sagði að það hefði verið þungt og erfitt verkefni að koma landinu í skjól, meðal annars með ákvörðunum sem Samfylkingin hefði tekið í ríkisstjórn og hefðu reynst afgerandi. „Vissulega snérist vinna ríkisstjórnar Jóhönnu [Sigurðardóttur] fyrst og fremst um að verja almenning; að bjarga því sem bjargað varð.“ Þó hefði einnig verið lagður grunnur að efnahagsbata sem hefði nú skilað sér í fordæmalitlu hagvaxtarskeiði undanfarin ár.

Margt hefði lagst með Íslendingum, makríll synt inn í lögsöguna og ferðamenn streymt til landsins sem aldrei fyrr. „Síðast en ekki síst var það þó æðruleysi og fórn almennings sem kom okkur í gegnum þessa erfiðu tíma.“ 

Logi sagði Samfylkinguna hafa skýra sýn og þess vegna væri mikilvægt að hún næði vopnum sínum og yrði nægilega stór til að mynda félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar.

Hann sagði fjölskyldur geta sparað sér tugi þúsunda í hverjum mánuði með stöðugri gjaldmiðli og notið sambærilegra lífskjara og íbúar annars staðar á Norðurlöndunum. Þess vegna myndi flokkurinn, ef hann kæmist í stjórnarráðið á morgun, vinna að upptöku evru með aðild að Evrópusambandinu.

Flokkurinn myndi jafnframt ráðast tafarlaust í aðgerðir til að stöðva níðingsskap sem viðgengist á vinnumarkaðinum. „Ekki síst gegn erlendu fólki, sem hingað kemur til að bæta lífskjör sín og skilar auk þess ómetanlegu framlagi til lífskjara okkar. “

Logi sagði of marga hafa verið skilda eftir og þeir hefðu ekki notið góðæris síðustu ára. Leigumarkaðurinn væri ómanneskjulegur og þúsundir barna liðu skort.  

Hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að segja að ekkert svigrúm væri handa fólki sem hefði ekki efni á mat ef bíllinn bilaði. Samfylkingin tæki því einarða afstöðu með launafólki sem búi sig undir harða kjarabaráttu í vetur. „Hún ætti ekki að koma neinum á óvart - á meðan við sem erum hálaunafólk höfum fengið miklar launahækkanir er fólkið með verstu kjörin enn að bíða.“ Það væri því skiljanlegt að krafa launþegahreyfinganna væri jafnari kjör.

Logi sagði að menn þyrftu að hætta að sitja alltaf fastir í viðbrögðum, berja sífellt í brestina „eins og aðkoma þingsins að laxeldismálinu sýndi kannski glögglega.“ Flokkurinn þyrfti þvert á móti að vera opinn, djarfur og þora að gera róttækar grundvallarbreytingar. „Þá gildir að vera framsækin, ekki íhaldssöm og umfram allt taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV