Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vill vernda minjar í Öskjuhlíð

02.05.2014 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Gæta þarf og vernda náttúru og sögulegar minjar í Öskjuhlíð svo sómi sé að, segir Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hún segir að huga þurfi að þeim hvenær sem ráðist er í framkvæmdir í Öskjuhlíð.

Sigrún ræddi sögu, minjar og náttúru Öskjuhlíðar við upphaf þingfundar á Alþingi í dag. Hún vísaði til fréttar RÚV á dögunum þar sem Stefán Pálsson sagnfræðingur sagði að Íslandssagan yrði ófullkomin ef minjum, sem herinn skildi eftir sig í Öskjuhlíð eftir seinna stríð, yrði ekki haldið til haga.

„Undirrituð flutti tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir aldarfjórðungi síðan um að þessari sögu verði gerð góð skil með fræðsluspjöldum meðal annars. Gefinn var út í kjölfarið ágætis bæklingur um náttúru og sögu Öskjuhlíðarinnar sem krafa ætti að vera um að hafa við höndina þegar eitthvað á að framkvæma þar, sama hvaða framkvæmdir það eru,“ sagði Sigrún.

Sigrún sagði að Öskjuhlíðin væri merkilegur staður sem státaði af merkri sögu sem tengdist borginni. Sigrún rifjaði upp að stúdentar hefðu notað Öskjuhlíð sem fundarstað, fyrsta og eina járnbraut landsins hefði tengst henni og síðan hefði seinna stríð sett mark sitt á hana. „Allt þetta þarf að passa og vernda svo sómi sé að. Umhverfismál og sögulegar minjar skipta líka máli innan borgarmarkanna. Ég vona að ný borgarstjórn taki betur á þessu máli.“