Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill verja samningsrétt verkalýðsfélaganna

20.12.2015 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Alþýðufylkingin vill verja samningsrétt verkalýðsfélaganna og lýsir yfir „beiskri gremju yfir þeirri hörðu sveltistefnu sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið rekið eftir um langt árabil.“ Flokkurinn telur að stefna íslensku auðstéttarinnar sé að hafa húsnæðisþörf fólksins sem féþúfu „sem gefur af sér hámarksgróða“ og vill að Ísland dragi sig út úr stríðinu gegn fíkniefnum og gegn hryðjuverkum.

Þetta kemur fram í nokkrum ályktunum sem samþykktar voru á landsfundi Alþýðufylkingarinnar í lok nóvember. 

Í ályktun um samningsrétt verkalýðsfélaganna kemur fram að samkvæmt lögum sé samningsréttur verkafólks í höndum einstakra stéttarfélaga. Flokkurinn telur að svokallað rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðarins „sé brot á lögum um stéttafélög og vinnudeilur enda koma fram í því hugmyndir um breytingar á þeim lögum,“ og vill landsfundur flokksins verja samningsrétt verkalýðsfélaganna.

Í ályktun um heilbrigðis-og velferðarmál lýsir landsfundur flokksins „beiskri gremju yfir þeirri hörðu sveltistefnu sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið rekið eftir um langt árabil og miðar að vaxandi einkavæðingu.“ Í ályktuninni segir að „borgaralegir stjórnmálaflokkar tönnlast á því að endurreisa íslenska heilbrigðiskerfið. Ekki er þó sýnt að neinn þeirra sé líklegur til að gera það.“ Landsfundurinn segir að fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta séu mannréttindi og eigi að vera í boði fyrir alla án endurgjalds.

Í ályktun landsfundarins um húsnæðiskreppuna segir að nægt framboð þurfi að vera á félagslegu húsnæði án fjármagnskostnaðar til að uppfylla þörf fyrir leiguhúsnæði. Stór hluti þjóðarinnar sitji fastur í fátæktargildru og sé ofurseldur leiguþrældómi. „Þetta er ein meginástæða þess að fjöldi ungs fólks hefur flutt úr landi á þessu ári þó að margt af því hafi getað fengið vinnu hér.“

Þá ætlar Alþýðufylkingin að beita sér fyrir skaðaminnkun og mannúðarstefnu í fíknefnamálum. „Þjóðfélag, sem lítur á sjúklinga sem glæpamenn, er þjóðfélag án mannúðar. Það verður að afglæpavæða neyslu fíkniefna og líta á fíkniefnavandann sem heilbrigðisvandamál.“

Alþýðufylkingin ætlar að beita sér fyrir því að Ísland dragi sig út úr stríðinu gegn fíkniefnum og stríðinu gegn hryðjuverkum. „m.a. með úrsögn úr NATO og gerbreyttri afstöðu til stefnu Vesturlanda í málefnum Miðausturlanda, og að á Íslandi verði sérstakt skjól fyrir upplýsingaveitur internetsins.“

 

 

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV