
Emile Ratelband er á sjötugasta aldursári, fæddur 11. mars 1949. Hann vill fá að breyta fæðingardegi sínum í 11. mars 1969. Í viðtali við hollenska blaðið De Telegraaf líkir hann máli sínu við raunir transfólks. „Þú getur breytt nafninu þínu. Þú getur breytt kyninu. Af hverju ekki aldrinum?" hefur De Telegraaf eftir honum.
Ratelband segir aldurinn vera honum margsinnis til trafala. Verði hann 49 ára í stað 69 geti hann til að mynda keypt sér nýtt hús og unnið meira. Þá telur hann að ef hann verði skráður tuttugu árum yngri eigi hann meiri möguleika á stefnumótamarkaðnum. „Þegar ég er á Tinder og segi að ég sé 69 ára fæ ég aldrei svar. Með mitt andlit verð ég í góðum málum 49 ára gamall." Meðal þess sem Ratelband notar til að styðja mál sitt er að læknar segja líkamlegt ástand hans á við 45 ára gamlan mann. Þá lýsir hann sjálfum sér sem ungum guði að sögn breska ríkisútvarpsins.
Ratelband er nokkuð þekkt andlit í Hollandi. Hann var með sjónvarpsþætti í byrjun aldarinnar og hefur haldið fjölda fyrirlestra. Miðað við lýsingu á honum á vefsíðu hans virðist aldurinn þó ekki flækjast fyrir honum. Þar segir að hann vilji verða minnst 94 ára, og enn við hestaheilsu, áður en hann fellur frá. Auk þess segir þar að samband hans við konu drauma sinna sé stöðugt.