Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill undanþágu frá þriðja orkupakkanum

17.11.2018 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, vill fá undanþágu frá þriðja orkupakkanum með fyrirvara um framhaldið. Hann yrði um að Ísland undirgangist ekki ákvæði um sameiginlegan orkumarkað Evrópu fyrr en og ef Íslendingar ákveddu einhvern tímann í framtíðinni að þeir vildu tengjast Evrópu með sæstreng. Þetta sagði Sigurður Ingi á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag.

Mikil umræða hefur verið um þriðja orkupakka Evrópusambandsins undanfarið. Margir hafa gagnrýnt pakkann með þeim orðum að upptaka hans hér myndi fela í sér valdaframsal til erlendra stofnana umfram það sem stjórnarskráin heimilar. Þess viðhorfs hefur einkum orðið vart innan ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, auk Miðflokksins.

EES-samningurinn ákaflega hagfelldur

Sigurður Ingi fjallaði um þriðja orkupakkann undir lok ræðu sinnar á miðstjórnarfundinum. „Það er engin spurning í mínum huga að EES-samningurinn hefur verið Íslandi ákaflega hagfelldur.“ Það hefði birst í viðskiptum og margvíslegum öðrum ávinningi. Hann sagði að sífellt hefði orðið erfiðara að innleiða reglur ESB í EES-samninginn vegna minnkandi áherslu ESB á tveggja stoða kerfi EES-samningsins, margt hefði verið samþykkt þó að það byggði aðeins á einni stoð, Evrópusambandinu. Sigurður Ingi sagði að þriðji orkupakkinn væri hluti af tveggja stoða kerfi samningsins.

„Hvað er það þá sem veldur öllum þessum usla? Í upphafi skyldi endinn skoða,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagði mikinn mun á íslenskum og erlendum orkumarkaði. Hér væru orkufyrirtæki flest í opinberri eigu og orka ein sú ódýrasta sem völ væri á. Hann sagðist á sínum tíma hafa spurt sig hvers vegna Íslendingar hefðu gengið lengra í að aðskilja orkuvinnslu og dreifingu en flestar þjóðir Evrópu, og það þrátt fyrir að Ísland væri ekki hluti af orkumarkaði Evrópu sem orkupakkar Evrópusambandsins snúist um. Reynslan sýnir að orkuverð hefði lækkað en dreifingarkostnaður hækkað, sagði Sigurður Ingi. Hann spurði, að því gefnu að Íslendingar vildu ekki tengjast sameiginlegum markaði Evrópu með sæstreng, hvers vegna Íslendingar ættu þá að taka upp þriðja orkupakkann sem snerist fyrst og fremst um sameiginlegan markað.

Undanþágur og fyrirvarar

„Væri leiðin þá ekki sú að nýta þær undanþágur sem við gerðum upphaflega og við gætum þurft að útvíkka þær og klára þetta mál með fyrirvara um að ef við ákvæðum seinna, eftir tíu, tuttugu, hvað þá eftir 50 ár, hvað veit ég, að tengjast hinum sameiginlega markaði, að þá tækjum við upp sameiginlegt regluverk Evrópusambandsins um flutning á orku milli landa,“ sagði Sigurður Ingi.

Þetta uppskar nokkuð lófaklapp fundarmanna. Tvö kjördæmisfélög flokksins hafa ályktað um að Ísland ætti ekki að taka um þriðja orkupakkann.

„Er þetta kannski lausnin sem við ættum að leitast eftir?“ spurði Sigurður Ingi. „Mín skoðun er sú að eftir þessu ættum við að sækjast í samskiptum við ESB og önnur EES-ríki. Við munum ekki trufla Norðmenn með þeirri leið en ég veit að við þyrftum að banka upp á hjá Evrópusambandinu,“ sagði Sigurður Ingi. „Ríkisstjórnin vinnur að því nú hvernig við getum nálgast þetta verkefni en staðreyndin er sú að innleiðing á þriðja orkupakkanum er innan tveggja stoða kerfis EES-samningsins og EES-samningurinn er okkur sá mikilvægasti alþjóðlegi samningur sem við höfum gert.“