Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Vill tengja krónuna beint við evru

26.10.2011 - 10:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnvöld þurfa að skýra fyrir þjóðinni hvers vegna Íslendingar ættu að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þetta sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands við upphaf formannafundar ASÍ sem nú stendur yfir.

Hann hvatti meðal annars Alþingi til að ná breiðri samstöðu um rammaáætlun um endurnýjanlega orku, svo leggja mætti áherslu á nýjar greinar á borð við kísiljárn, sólarsellur, koltrefjar og gagnaver. Þá lagði Gylfi til að krónan yrði tengd beint við evruna.

„Í ljósi þess að krónan okkar á sér ekki viðreisnar von og við blasa gjaldeyrishöft um ókomin ár er ég þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að ræða milliliðalaust við pólitíska forystumenn helstu ríkja í Evrópu um beina aðstoð þeirra til að treysta stöðu gjaldmiðilsins, hugsanlega með því að tengja krónuna beint við evruna með stuðningi bæði AGS, IMF og evrópska Seðlabankans. Þannig gæti almenningur og fyrirtæki fyrr notið þeirra vaxtalækkana og stöðugleika sem við þurfum á að halda.Við eigum ekki að láta skammtíma vanda evru, dollars og jens villa okkur sýn, evran er í fyrsta lagi eins og klettur í hafinu borið saman við krónuna, og í öðru lagi er vandi dollarsins enn meiri en evrunnar þar sem viðskiptahalli og halli á fjárlögum er töluvert meiri í Bandaríkjunum heldur en í Evrópu.“

Setningarræða Gylfa Arnbjörnssonar er svohljóðandi:

„Forsætisráðherra, ágætu félagar.

Nú eru liðin þrjú ár frá einhverju mesta efnahagshruni sem þessi þjóð hefur mátt upplifa. Allt of margir félagar okkar hafa staðið frammi fyrir miklum vanda vegna atvinnu- og tekjumissis, rýrnandi kaupmáttar og gríðarlegrar skulda- og vaxtabyrði. Eins og fram kemur í nýrri hagspá Hagdeildar ASÍ má gera ráð fyrir að verstu afleiðingar hrunsins séu að baki og framundan sé hægur bati í efnahagslífinu. Það er hins vegar mikið áhyggjuefni hversu veikur þessi efnahagsbati er þannig að við blasir algjör doði í hagkerfinu. Verði þessi spá að veruleika mun okkur hvorki takast að endurheimta fyrri lífskjör né að vinna bug á atvinnuleysinu á komandi árum.

Þau verkefni sem við settum okkur í þessum hrunadansi var annars vegar að treysta stöðu þeirra tekjulægstu og verja hag heimilanna og hins vegar að leggja grunn að endurreisn okkar lífskjara með uppbyggingu atvinnulífsins til að skapa fleiri störf og auka tekjur. Þessi vegferð hefur ekki verið auðveld og við höfum mátt sitja undir harðri gagnrýni um ýmis þau mál sem við höfum staðið fyrir. Ég nefni þetta ekki vegna þess að ég vilji ekki fá gagnrýni, þvert á móti eigum við að fagna því að fá uppbyggilega og nauðsynlega gagnrýni á störf okkar bæði innan úr hreyfingunni og frá samfélaginu öllu. Við eigum hins vegar ekki að láta óbilgjarna spunataktík og útúrsnúninga hrekja okkur af leið. Við megum ekki láta slíkan málflutning aftra okkur frá því að krefjast þátttöku í mótun lausna, vera tilbúin til að axla ábyrgð á og taka þátt í samstarfi ef það má vera til þess að hafa jákvæð áhrif á hag og stöðu okkar félagsmanna.

Ég vil einnig leyfa mér að líta yfir þessi þrjú ár og haka við ýmislegt af því sem hefur verið áorkað. Okkur tókst að verja kaupmátt þeirra tekjulægstu í hruninu og með kjarasamningunum núna í vor hófum við þá vegferð að byggja upp kaupmátt hins almenna launamanns. Okkur hefur tekist að ná í gegn mikilvægum réttarbótum fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem eru í miklum greiðsluerfiðleikum, bæði hvað varðar að verja þau fyrir ágangi og græðgi rukkaranna og fá í gegn skýr lagaákvæði sem gera almenningi kleyft að fá liðsinni dómstóla til að afskrifa endanlega ógreiðanlegar skuldir. Okkur tókst í samstarfi við ríkisstjórnina að verja viðkvæmustu hluta okkar heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfis, þó óhjákvæmilegur niðurskurður hafi komið við okkur öll. Öfugt á við félaga okkar í nálægum löndum þá tókst okkur að lengja bótaréttinn í atvinnuleysistryggingum tímabundið í fjögur ár á meðan hann hefur verið styttur annars staðar.

En góðir félagar,

Það sem ekki hefur tekist á þessari vegferð er að koma gangverki atvinnulífsins í gang, að skapa störf og auka tekjur okkar félagsmanna. Alþýðusambandið hefur verið og er þeirrar skoðunar að affærasælast sé að mynda breiða samstöðu á vinnumarkaði og á vettvangi stjórnmálanna til að leiða þjóðina í gegnum þetta óveður. Það er engin launung á því að mikillar tortryggni gætti meðal fulltrúa í samninganefndum aðildarsamtaka ASÍ í garð ríkisstjórnarinnar eftir þær deilur sem urðu um framgöngu Stöðugleikasáttmálans frá júní 2009. ASÍ beitti sér fyrir því að fá fram skuldbindingar af hálfu ríkisstjórnarinnar bæði um samstarf og samráð við stefnumótun í mikilvægum málaflokkum og skýrar tímasetningar um hvenær stefnumiðin lægju fyrir. Þannig átti að endurskoða efnahagsstefnuna, þar sem áherslan í samstarfinu myndi færast yfir á önnur brýn úrlausnarefni. Þannig þarf að takast á við mótun fjárfestingaráætlunar, sérstakrar hagvaxtaráætlunar og umfram allt stefnu stjórnvalda í vaxta-, gengis- og verðlagsmálum. Samkomulag var um að þetta ætti að liggja fyrir í lok maí og júní, áður en við tækjum endanlega afstöðu til gildistöku kjarasamninganna, en hefur ekki ennþá séð dagsins ljós og lítið samráð hefur verið við okkur haft um innihaldið.

Upplegg ríkisstjórnarinnar í fjárlögunum olli vonbrigðum, forsendurnar veikar ef ekki beinlínis úreltar, og ekki stendur til að efna loforðin um hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga. Ég ætla ekki hér að fara nánar út í fjárlögin, við munum setja fram rökstuddar athugasemdir við þau í nóvember, en leyfa mér að velta að eins vöngum með ykkur um það hvernig þessi þjóð getur komist upp úr þeim hjólförum sem við höfum fests í. Að mínu mati erum við í kapphlaupi við tímann – við höfum klárlega fleiri tækifæri til hagvaxtar en margar aðrar þjóðir en gætum allt eins upplifað að þau sigli hjá ef við náum ekki breiðri samstöðu um leiðina fram á við.

Til að komast upp úr hjólförunum þurfum við í fyrsta lagi bæði djarfhug og breyttar forsendur til að lenda ekki í sömu pyttum og við erum að glíma við. Forystumenn þjóðarinnar, bæði á vettvangi stjórnmálanna, innan verkalýðshreyfingarinnar og meðal atvinnurekenda, gerðu sér grein fyrir því í upphafi síðustu aldar að til að auka lífskjör þessarar þjóðar urðum við að segja skilið við ofríki Dana og hasla okkur völl í alþjóðlegum viðskiptum og samskiptum á eigin forsendum. Það sama á við þegar við tókum ákvörðun um að segja skilið við áratuga óðaverðbólgu og víxlverkanir gengis og verðlags með gerð þjóðarsáttarsamninganna og gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu uppúr 1990. Í bæði þessi skipti leystum við úr læðingi mikla og varanlega lífskjarabyltingu.

Í öðru lagi þarf skýra framtíðarsýn um hvert við viljum fara og stefnufestu til þess að hrekjast ekki af leið. Þjóðin býr að fjölmörgum tækifærum og mannauði en okkur skortir áræðni til að nýta þau.

Í þriðja lagi þarf að setja þarfir fólks og fyrirtækja í öndvegi, ekki pólitískar kreddur. Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir er, hvort við ætlum að falla til baka á tímabilið sem einkenndi þjóðfélagsþróunina á árunum fyrir 1990 með endurteknum átökum um meginmarkmið og víxlverkunum gengis og verðlags eða rífa okkur upp úr hjólförunum og nýta þau tækifæri sem við búum að.

Ágætu félagar,

Hver eru viðfangsefnin og hvar eru tækifærin? Augljóslega er brýnasta úrlausnarefnið að auka hagvöxt og fjölga störfum. Samkomulagið frá því í vor var um mótun áætlunar til að auka fjárfestingar – sem eru í sögulegu lágmarki – sem leggja myndi grunn að meiri hagvexti og verðmætasköpun í framtíðinni. Bæði þarf að huga að bráðaaðgerðum til að skapa störf á borð við fjárfestingar í samgöngumannvirkjum og viðhaldi og nýbyggingu fyrir hið opinbera þar sem lífeyrissjóðirnir geta verið mikilvægir samstarfsaðilar um fjármögnun og huga að langtíma uppbyggingu og þróun. Það er mikill ábyrgðarhluti að einstaka ráðherrar geta einfaldlega slegið samkomulag við okkur út af borðinu án þess að ríkisstjórnin bregðist við í heild sinni. Í nýrri hagspá Hagdeildarinnar kemur fram, að litlar líkur eru á því að óbreyttu að markmiðið um umfang fjárfestinga náist á þessu samningstímabili. Þetta er mikið áhyggjuefni og það er mikilvægt að við sendum stjórnvöldum skýr skilaboð af þessum formannafundi um þessi atriði og hvað er í húfi.

Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að mestu tækifærin til hagvaxtar hér á landi liggja í að nýta þau tækifæri sem eru í okkar græna hagkerfi. Ísland gæti verið eitt af fyrstu löndunum sem byggi meirihluta efnahagsstarfseminnar á grænum gildum. Fyrir skemmstu kom niðurstaða af þverpólitískri vinnu flokkanna um að auka vægi græna hagkerfisins og er það mikið fagnaðarefni. Það vakti engu að síður athygli mína að lítið var fjallað um eina af megin ástæðum þess að þessi geiri hefur ekki tekið flugið hingað til og það er markaðsaðgangur fyrir okkar fullunnu grænu afurðir frá landbúnaði og sjávarútvegi. Þrátt fyrir að fullvinnsla hafi aukist töluvert í sjávarútvegi er allt of mikið um hráefnaútflutning og stór hluti af útflutningi á landbúnaðarafurðum er óunninn afurð. Fyrir utan þá kvóta sem við fengum með EES samningnum, er útflutningur þessara afurða annað hvort bannaður með öllu eða tollaður sérstaklega. Þess vegna reka íslensku útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin eigin starfsemi innan ESB til að forðast tollanna en eftir sitjum við án þeirra tækifæra sem við ella hefðum. Þess vegna fara lömbin að mestu óunninn úr landi.

Við þessu eigum við að bregðast því við eigum ekki að láta bjóða okkur að stærstu atvinnugreinar verkafólks segi pass við þeim áskorunum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Það gengur ekki að við látum þessi tækifæri sigla hjá okkur án þess að það skili sér í fjölgun starfa og aukinni verðmætasköpun.

Við höfum einnig mikil tækifæri í endurnýjanlegri orku og verðum að sýna meiri áræðni í að sækja þau. Í samningunum í vor lögðum við mikla áherslu á að lögin um verndun og nýtingu jarðvarma og fallvatna yrðu afgreidd á vorþingi og sem betur fer var breið samstaða á Alþingi um þetta frumvarp – það auðveldar næsta leik sem er afgreiðsla rammaáætlunar um nýtinguna. Ef Alþingi tekst að mynda breiða samstöðu um rammaáætlunina ættu okkur að vera allir vegir færir að sækja fram á þessu sviði af meiri þrótt og þunga með áherslu á nýjar greinar eins og kísiljárn, sólarsellur, koltrefjar, gagnaver o.fl. Hér verða stjórnvöld hins vegar að leggja meiri þunga á vogarskálarnar. Heimurinn er enn einu sinni að glíma við erfiðleika á fjármálamörkuðum og erfitt er fyrir öll fyrirtæki að fjármagna verkefni. Þá getur skipt sköpum að hafa stjórnvöld í liði með sér í stað þess þau sýni af sér tómlæti, ef ekki beinlínis að þvælast fyrir. Hér þarf áræðni því mikið er í húfi að okkur takist að lyfta fjárfestingunum og auka verðmætasköpunina.

Kæru félagar,

Lykilatriðið í uppbyggingu atvinnulífs og endurheimt okkar fyrri lífskjara er hins vegar stefnan í peninga- og gengismálum. Enn og aftur hefur krónan verið örlagavaldur gagnvart verðbólgu og kaupmætti. Enn og aftur hafa félagsmenn okkar mátt þola óviðunandi greiðslubyrði vegna hárra vaxta. Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þann kalda veruleika, að við eigum svo langt í land með að ná jöfnuði í gjaldeyrishreyfingar að gjaldeyrishöftin eru komin til að vera um nokkuð langt skeið. Seðlabankinn hefur upplýst að hann telur mikilvægt að hækka vexti eigi að hækka á næstu misserum og AGS telur að mæta eigi hækkun raungengis vegna verðbólgu með gengisfellingum og halda þannig kaupmætti niðri um næstu 10-15 árin. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld og Seðlabanki geri sér grein fyrir því að um slíka stefnu verður ekkert samkomulag, en slík áform gætu dæmt okkur í ástandið eins og það var á árunum fyrir 1990 með víxlverkunum gengis og verðlags. Þá voru gjaldeyrishöft og þá var gengið notað til þess að búa til gjaldeyri í stað þess að efla raunverulega verðmætasköpun í útflutningi vegna þess að stjórnmálin gátu ekki tekist á við hinar raunverulegu áskoranir. Þetta er ástand sem við viljum ekki en er ástand sem við kunnum að þurfa að glíma við engu að síður.

Á ársfundinum okkar í október 2008 var sú stefna ASÍ samþykkt, að umsókn um aðild Íslands að ESB og upptaka evru væri eina færa leiðin út úr þeim ógöngum sem við værum í. Við vildum láta á það reyna í aðildarviðræðum hvaða samning Íslandi standi til boða og hann lagður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Þessi afstaða hefur verið ítrekuð á öllum ársfundum síðan. Eftir að farið var í þessa vegferð hefur gengið ótrúlega hægt að móta samningsmarkmið okkar, ríkisstjórnin er innbyrðis ósammála um markmiðin með þessu ferli, landbúnaðarráðherra kemur kerfisbundið í veg fyrir að hægt sé að skilgreina og samræma hagsmuni okkar í landbúnaði. Stjórnarandstaðan hamrar á því að fallið verði frá þessari umsókn og vill geyma að fjalla um framtíðina þangað til síðar og fara stefnu- og markmiðslaus í gegnum endurreisnina og væntanlega endað á sama vonlausa staðnum og við erum nú á! Skýra forystu vantar hins vegar um það hvers vegna við ættum að gerast aðilar að Evrópusambandinu og lítt verður vart við tilraun til þess að útskýra það fyrir þjóðinni og skilgreina hvaða mál það eru sem munu bera væntan samning í gegnum atkvæðagreiðslu.

Í ljósi þess að krónan okkar á sér ekki viðreisnar von og við blasa gjaldeyrishöft um ókomin ár er ég þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að ræða milliliða laust við pólitíska forystumenn helstu ríkja í Evrópu um beina aðstoð þeirra til að treysta stöðu gjaldmiðilsins, hugsanlega með því að tengja krónuna beint við evruna með stuðningi bæði AGS, IMF og Norðurlöndunum. Þannig gæti almenningur og fyrirtæki fyrr notið þeirra vaxtalækkana og stöðugleika sem við þurfum á að halda.Við eigum ekki að láta skammtíma vanda evru, dollars og jens villa okkur sýn, evran er í fyrsta lagi eins og klettur í hafinu borið saman við þá krónu sem við búum við og í öðru lagi er vandi dollarsins enn meiri en evrunnar þar sem viðskiptahalli og halli á fjárlögum er töluvert meiri en í Evrópu.

Ég vil einnig leyfa mér að minna á, að þing ASÍ árið 2000 samþykkti ályktun um að stjórnvöld ættu að hefja undirbúning að umsókn um aðild að ESB og upptöku evru í stað þess að hverfa frá fastgengisstefnunni og taka upp fljótandi gjaldmiðil með verðbólgumarkmiði. Okkur var og er sagt að það sé mikilvægt að halda í sveigjanleika krónunnar, sveigjanleika sem hefur verið notaður til þess að ræna okkur bæði eignum okkar og tekjum. Gegn þessu verðum við að leggjast en undanfarnar vikur höfum við unnið að úttekt á því hvaða afleiðingar þetta val á fyrirkomulagi gengismála hafði fyrir okkar félagsmenn s.l. 10 ár. Málið verður kynnt sérstaklegs síðar, etv. á sérstöku málþingi, en ég vil hér segja að húsnæðisvextir hér á landi hafa verið allt að fimm til sex sinnum hærri en á Evrusvæði ESB s.l. 10 ár og voru í árslok 2010 greiddu evrópskir launamenn einungis 3,4% nafnvextir samanborið við þau ofurkjör sem okkur er gert að greiða. Ef horft er til kaupa á venjulegri 3ja herbergja íbúð árið 2000 hafa hjón á meðallaunum mátt leggja að meðaltali um 12% af ráðstöfunartekjum sínum á hverju einasta ári aukalega í greiðslubyrði lána. Ef litið er á þá skuldsetningu sem landsmenn eru nú með er þessi munur hvorki meira né minna en þriðjungur ráðstöfunartekna okkar – er nema furða að fólk sé reitt! Þar sem hér er um hreinan kaupmátt að ræða – kaupmátt sem það tæki okkur næstum áratug að byggja upp – er augljóslega eftir miklu að slægjast að okkur takist að sjá brýnum hagsmunum okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum borgið í aðildarviðræðunum þannig að af aðild geti orðið. Við eigum ekki að hlusta á falsboðskap, við eigum ekki að fara úr öskunni í eldinn, við eigum einfaldlega að nota aðild að Evrópusambandinu sem það ankeri sem við þurfum til þess að draga okkur upp úr þeim hjólförum sem við erum í, þannig getum við náð tökum á skuldavanda heimilanna því reynslan sýnir okkur að þau för sem við erum í geta ekki leitt okkur annað en á braut ófremdarástands sem eykur þann vanda sem við er að glíma.

Ágætu félagar,

Slakur árangur í atvinnumálum og viðvarandi og aukið langtíma atvinnuleysi hefur haft mikil áhrif á þann mikla fjölda félaga okkar sem hafa verið án atvinnu. Nú er svo komið að yfir 60% þeirra sem eru án atvinnu hafa verið það í lengur en sex mánuði. Við höfum lengi lagt áherslu á mikilvægi virkra vinnumarkaðsaðgerða og höfum allar götur frá 1996, þegar framkvæmd atvinnuleysisbótakerfisins var færð frá okkur, verið ósátt. Við endurskoðun kjarasamninga í nóvember árið 2005 náðum við samkomulagi um endurskoðun á bæði bótakerfinu og lögunum um virkar vinnumarkaðsaðgerðir. Væntingar okkar voru miklar og því voru vonbrigðin mikil að þessi lög hafa nánast verið óvirk síðan. Með samningunum í vor náðum við mikilvægum árangri um stóraukin framlög til virkra vinnumarkaðsaðgerða, eða úr 600 mill.kr. í 2.500 mill.kr. Þegar hefur hluta verkefnisins verið ýtt úr vör undir yfirskriftinni Nám er vinnandi vegur. Krafa okkar hefur verið skýr, við viljum fá að yfirtaka aftur framkvæmd atvinnuleysisbótakerfisins, einkum skráningu og virka vinnumiðlun ásamt þjónustu við þá atvinnulausu með áherslu á að fjárfesta í þekkingu og hæfni fólks til að koma þeim aftur í virka atvinnuþátttöku. Það var því ánægjulegt að samkomulag náðist um að aðilar vinnumarkaðarins gætu tekið yfir fjórðung kerfisins sem tilraunaverkefni til að láta reyna á hugmyndir okkar og atvinnurekenda um breytta útfærslu og áherslur. Það er mikilvægt að við ræðum aðkomu okkar að þessu tilraunaverkefni ásamt þau virkniúrræði sem við viljum leggja áherslu á á þessum fundi til að nesta fulltrúa okkar í verkefnisstjórninni.

Góðir félagar.

Þegar við horfum yfir þróun mála síðast liðin áratug er ljóst að samstarfið innan raða Alþýðusambandsins hefur verið bæði djúpt og náið. Við getum líka verið stolt af þeim árangri sem þessi samstaða hefur skilað á þessum áratug. Það er nefnilega þannig að fjármagnið og margir stjórnmálamenn eru afar skammsýn í sínum veruleika. Það er ýmist afkoman á árinu eða jafnvel ársfjórðungnum sem stýrir ákvörðunum stjórnenda fyrirtækja og næstu kosningar hafa gjarnan haft áhrif á stjórnmálamanninn. Verkalýðshreyfingin er hins vegar stöðugt að hugsa um stöðu launafólks til langs tíma, hvernig félagar okkar geta sótt tækifærin í formi menntunar eða mætt óvissunni í formi réttinda og öryggis við afkomubrest. Þetta sáum við hvað einna best á árunum 2004-2008. Samstaðan innan okkar raða gerði okkur kleyft á þessum árum að tryggja aukin framlög í fullorðinsfræðslu með stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og eflingu símenntamiðstöðvanna, aukin framlög í starfsmenntasjóðina okkar, aukin og bætt réttindi í atvinnuleysistryggingasjóði og virkum vinnumarkaðsaðgerðum og nýverið uppbyggingu VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs til að aðstoða þá félaga okkar sem búa við afleiðingar langvarandi veikinda og slysa.

Í undangengnum kjarasamningum höfum við einnig náð að mynda traust samband og samstarf milli sambandanna okkar og félaganna með beina aðild með sérstökum samstarfssamningi þar sem opinskátt er kveðið á um forsendur samstarfsins og hvernig tekið er á úrlausn mála. Hefur þetta verið aðildarfélögunum og samböndunum styrkur í glímu þeirra við atvinnurekendur og tryggt okkur sterkari stöðu við stjórnvöld. Um margt hefur samstarfið á vettvangi Alþýðusambandsins verið traustara og sterkara en það hefur verið um áratuga skeið og skilað félagsmönnum okkar árangri sem tekið er eftir.

Á þessa samstöðu mun vafalaust reyna áfram þegar við komum að endurskoðun kjarasamninga í janúar. Þó allar líkur séu á því að kaupmáttarforsenda samninganna standist er ljóst að á gengis- og verðlagsforsenduna reynir og enn einu sinni stefnir í að á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar muni reyna. Þó ríkisstjórnin hafi verið fylgin sér í glímunni við aðlögun ríkisfjármála, verður hún ekki sökuð um sömu eftirfylgni með öðrum stefnumiðum í efnahags- og atvinnumálum. Ný hagspá okkar bendir til þess að fjárfestingar- og hagvaxtarmarkmiðinu verði ekki náð, Seðlabankinn spáir því að hvorki gengis- eða verðbólgumarkmið samninganna verði náð í lok næsta árs og fullkominn óvissa er um fyrirkomulag peninga- og gengismálanna. Ekki verður maður var við að ríkisstjórn eða Seðlabanki hafi af þessu einhverjar sérstakar áhyggjur, en á þetta allt mun reyna í janúar en hér á þessum fundi ætlum við að staldra við atvinnumálin, bæði uppbygginguna og störfin en einnig þjónustu við þá sem hafa misst vinnuna til að auðvelda þeim að snúa aftur til virkar þátttöku á vinnumarkaði.

Með þessum orðum segi ég þennan formannafund settann og býð forsætisráðherra að taka til máls.

Takk fyrir.“