Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill sýna útlendingum að við séum ekki flón

25.09.2018 - 17:18
Mynd: Stjórnarráðið / Stjórnarráðið
Íslendingar voru ekki meiri vitleysingar en aðrir en í fjármálakreppunni gerðu allir sér leik að því að sparka í Ísland, við urðum að sumu leyti munaðarlaus. Þetta segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann afhenti í dag fjármálaráðherra skýrslu sína um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Megintilgangurinn með skýrslunni er að hans sögn að útskýra fyrir útlendingum að Íslendingar séu ekki flón heldur hefðu orðið fórnarlömb aðstæðna.

Bretar hafi mismunað eigendum banka eftir þjóðerni

„Mín helsta niðurstaða er sú að Íslendingar hafi verið leiknir grátt í fjármálakreppunni, beiting hryðjuverkalaganna var til minnkunar fyrir Breta eins og Mervyn King, fyrrverandi seðlabankastjóri Breta, sagði mér í viðtali sem ég tók við hann útaf skýrslunni. Í öðru lagi lokuðu Bretar tveimur breskum bönkum á meðan þeir björguðu öllum öðrum breskum bönkum og þessir tveir bankar voru í eigu Íslendinga. Þetta eru tvö atriði úr skýrslunni en þar er ýmislegt fleira, til dæmis hvernig eigur bankanna á Norðurlöndum voru hirtar fyrir smánarverð í samstarfi við stjórnvöld í þessum löndum. Það er eins og að í fjármálakreppunni hafi allir gert sér leik að því að sparka í Ísland.“

Bretar hafi með því að bjarga ekki KSF og Heritable mismunað á grundvelli þjóðernis og það bjróti gegn reglum um innri markað Evrópu, samt hafi Framkvæmdastjórn ESB ekki tekið það upp. 

Einhver þarf að brjóta glerið

Þú setur þarna fram svolítið nýja sýn á það hvað olli hruninu, það má kannski  lesa það út úr skýrslunni að erlendir aðilar hafi hrundið þessu af stað með því að neita að lána Íslandi eða eins og á Bretlandi, með því að loka tveimur bönkum?

 „Ég myndi ekki draga úr því að við getum að miklu leyti kennt sjálfum okkur um það hvernig fór en það er ekki nóg að segja að glerið hafi verið brothætt það verður líka að vera einhver sem brýtur það. Þess vegna er ekki nóg að segja að íslenska bankakerfið hafi verið orðið of stórt, það þarf líka eitthvað að verða til þess að fella það. Ég held því fram í þessari skýrslu og held það sé enginn ágreiningur um það að það hafi verið teknar um það ákvarðanir eða gert um það þegjandi samkomulag erlendis að hjálpa ekki Íslandi, veita Íslandi ekki lausafjárfyrirgreiðslu. Við sjáum þetta best með því að bera saman banka eins og UBS í Sviss, Danske Bank í Danmörku og RBS í Skotlandi.  Þessir bankar voru allir að falli komnir og hefðu allir hrunið ef þeir hefðu ekki fengið aðstoð sem að mestu leyti var veitt af bandaríska seðlabankanum en Íslendingum var neitað um þessa aðstoð.“ 

En getum við verið reið við Bandaríkin yfir að hafa ekki veitt okkur lán þegar við þurftum á því að halda? Þeim bar ekki skylda til þess. 

„Það má kannski orða það svona, Bandaríkin neituðu okkur um lán en veittu bæði Sviss og Svíþjóð lán, löndum sem hafa aldrei verið bandamenn Bandaríkjanna og UBS í Sviss hegðaði sér á mjög einkennilegan hátt. Þarna kom í ljós að Bandaríkin litu ekki lengur á okkur sem mikilvægan Bandamann. Við getum ekki ætlast til þess að þau hjálpi okkur en af hverju hjálpuðu þau öðrum en ekki okkur?“

Telur Ísland hafa verið notað í pólitískum tilgangi

Þú ert með alls konar tilgátur í þessari skýrslu, leiðir líkur að hinu og þessu. Til dæmis talarðu um að hugsanlega hafi breska fjármálaeftirlitið lokað á banka í íslenskri eigu vegna þess að Gordon Brown og Alistair Darling eru báðir skoskir og hefðu viljað sýna Skotum hvaða áhætta væri fólgin í því að slíta sambandi við England. Á hverju byggir þú þessar tilgátur? 

„Til dæmis má benda á það að þegar Skotar gengu til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir ættu að slíta sambandinu við England þá gaf breska fjármálaráðuneytið út bækling þar sem aðalatriðið var þetta: Ef þið takið ykkur sjálfstæði fer eins fyrir ykkar bankakerfi og fór fyrir hinu íslenska. Bankakerfið í Skotlandi var tólfföld landsframleiðsla, bankakerfið á Íslandi svona sjö- til áttföld. Þið munið aldrei geta haldið uppi þessum bönkum af eigin rammleik. Ég styðst við þetta og líka það að þetta var eitt aðalatriðið í kosningabaráttunni í aukakosningum sem voru skömmu eftir bankahrunið í Bretlandi þegar Verkamannaflokkurinn var að halda einu af vígjum sínum í Skotlandi, menn sjá þetta auðvitað þegar þeir átta sig á því að þetta var lykillinn að valdastöðu Verkamannaflokksins það voru yfirráðin yfir Skotlandi og þessari valdastöðu var ógnað af skoskum þjóðernissinnum sem vildu sjálfstæði, það var ekkert verra fyrir þá Gordon Brown og Alistair Darling að benda á það að sjálfstæði gæti haft í för með sér hættur, ég held að beiting hryðjuverkalaganna og lokun bresku bankanna í eigu Íslendinga hafi verið af stjórnmálaástæðum og það er einfalt að rökstyðja það, þetta var hvort tveggja óþarft, það var óþarfi að beita hryðjuverkalögunum til að koma í veg fyrir ólöglega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands vegna þess að ég fann tilskipun se hafði verið gefin út fimm dögum áður en hryðjuverkalögum var beitt sem bannaði alla slíka fjármagnsflutninga. Lokun bresku bankanna var líka óþörf því það kom í ljós að þeir áttu vel fyrir skuldum.“ 

„Urðum að treysta á okkur sjálf“

En hver var tilgangurinn með skýrslunni? Hvernig nýtist hún? 

„Megintilgangurinn var að útskýra fyrir útlendingum að við værum ekki þessi flón og vitleysingar sem sumir hafa haldið fram að við værum, að við vorum að mörgu leyti fórnarlömb aðstæðna. Ástæða þess að bankarnir hrundu var ekki eingöngu að þeim hafi verið gáleysislega stjórnað, þó ég dragi það ekki í efa, frekar en öðrum bönkum, heldur líka sú að Íslendingum var neitað um lausafjárfyrirgreiðslu sem aðrar þjóðir fengu. Það kom í ljós í bankahruninu að við stöndum ein en það er eitt í viðbót mjög fróðlegt við það, það var að sumu leyti blessun frekar en bölvun því það þýddi að við urðum að treysta á okkur sjálf og við unnum okkur út úr þessum vanda, til dæmis með neyðarlögunum sem ég held að hafi verið mjög farsælt skref, við lærðum af því og nú hafa aðrar þjóðir tekið upp þetta sem við gerðum í hruninu, að veita innstæðueigendum forgangskröfur í bú banka.“ 

EKki verra að þekkja viðföng rannsóknar

Hannes segist við skýrsluskrifin einkum hafa stuðst við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og önnur gögn sem komið hafa fram síðar. Þá hafi hann rætt við hina og þessa, svo sem fyrrum seðlabankastjóra Bretlands, fyrrum fjármálaráðherra og forsætisráðherra. Það hafi bætt heilmiklu við skýrsluna. Davíð Oddson, félagi Hannesar var Seðlabankastjóri þegar hrunið skall á og hann þekkir marga aðra sem voru áberandi á hinu opinbera sviði. Hannes segir það ekki galla að standa nærri mönnum, þeir treysti honum þá betur. „Ísland er svo lítið land að það standa allir nálægt einhverjum þátttakendum í svona hildarleik eins og bankahrunið var. Aðalatriðið er ekki hverja maður þekkir heldur hvaða gögn og röksemdir menn geta lagt fram, vísindin eru umfram allt frjáls samkeppni hugmynda. Ég legg fram mína skýrslu, aðrir geta lagt fram aðrar og gagnrýnt hana. Mér finnst mestu máli skipta í umræðu um bankahrunið að það sé ekki bara eitthvert eitt sjónarmið sem komi fram heldur séu þau mörg.“ 

Tók tíma að stytta

Samningur um verkefnið, sem Hannes hafði umsjón með fyrir hönd Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, var undirritaður sumarið 2014 og þá gert ráð fyrir því að skýrslan yrði tilbúin sumarið 2015. Nú, rúmum þremur árum síðar er hún komin fram. Í umfjöllun Vísis, frá því í vor, var haft eftir ónefndum heimildarmönnum að það væri kurr í fræðasamfélaginu um efni og innihald skýrslunnar, Hannes hafi sent þeim sem fjallað er um í skýrslunni afmarkaða kafla til aflestrar og sitt sýndist hverjum. Þá sögðu heimildarmenn blaðsins ljóst að Félagsvísindastofnun þyrfti að vanda yfirlesturinn til að forða stofnuninni frá hugsanlegum málsóknum verði skýrslan gefin út í nafni stofnunarinnar. Hannes nefnir aðrar skýringar í samtali við Spegilinn. Mikill tími hafi farið í að stytta skýrsluna sem í upphafi hafi verið mun ítarlegri, það skýri seinkunina.

„Sumir viðmælendur létu svo bíða aðeins eftir sér og svo frétti ég af margvíslegum skjölum og gögnum sem ætti eftir að birta og var að bíða eftir þeim, mér fannst ekki að það lægi neitt mikið á, satt að segja.“ 

Tafirnar hafa að sögn Hannesar ekki kostað aukin útgjöld af hálfu ríkisins. 

Hlýða má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV