Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vill stofna nútímalistasafn á Djúpavogi

Vill stofna nútímalistasafn á Djúpavogi

30.06.2016 - 19:39

Höfundar

Mikið stendur til í gömlu bræðslunni á Djúpavogi en myndlistamenn víðs vegar að úr heiminum hafa síðustu daga unnið að því að setja þar upp stóra sýningu. Sigurður Guðmundsson myndlistamaður vill að stofnað verði nútímalistasafn á staðnum og gaf ásamt fleirum verk á hið verðandi safn.

Eitt verkanna, Upprif eftir Hrafnkel Sigurðsson, stendur vörð við bræðsluna á Djúpavogi en inni keppast listamennirnir við að stilla verkum upp áður en sýningin Rúllandi snjóbolti opnar á laugardag. Hjónin Sigurður og Ineke Guðmundsson eru potturinn og pannan í sýningunni og Kínversk-evrópska menningarmiðstöðin sem Ineke stofnaði.

Þetta er í þriðja sinn sem Rúllandi snjóbolti er haldinn á Djúpavogi. 32 listamenn taka þátt í ár, auk Íslendinga fjölþjóðlegir listamenn við Rijksakademie í Amsterdam Hollandi. Sigurður hvetur til þess að nútímalistasafn verði stofnað á Djúpavogi. „Ef þú átt einhverja ósk eða draum eða eitthvað svoleiðis þá verður þú einhvers staðar að byrja svo við ákváðum að gefa dálítið væn verk í þetta framtíðar safn Djúpavogs á nútímalist. Það er sko Museum of Modern Art Djúpivogur skilurðu.“ Sigurður gaf verkið Growing-Declining-Rotating, Þór Vigfússon verkið Formica og Hrafnkel Sigurðsson verkið Upprif sem áður segir.  

Sýningarrými var á sínum tíma sett upp í bræðslunni en listin flæðir út úr því. „Svo fyrir utan þessa hvítu veggi þá er mjög líflegt organískt rými sem margir listamenn sérstaklega af yngri kynslóðinni kunna vel við sig í. Allt sem gerir list að list og fær fólk til að hrífast af henni og allt það, það er í fullri fúnksjón í bræðslunni á Djúpavogi,“ segir Sigurður.

Hér má nálgast upplýsingar um sýninguna á vef Djúpavogshrepps.

 

 

Tengdar fréttir

Myndlist

Kom með kínverska list í yfirvigt

Menningarefni

Kínverskur snjóbolti á Djúpavogi

Myndlist

Stemningin á Djúpavogi minnir á SÚM-árin

Myndlist

Snjóboltinn rúllar í bræðsluna á Djúpavogi