Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill skýringar á ólíkum dómaratillögum

30.05.2017 - 12:44
Mynd með færslu
Fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með dómsmálaráðherra í morgun Mynd: RÚV - Þórdís Arnljótsdótti - RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vill fá gesti og frekari rökstuðning á fundi sínum eftir hádegi vegna þess að dómsmálaráðherra fór ekki að öllu leyti eftir hæfnisnefnd um landsréttardómara. Ráðherra segir ekki rétt að hann hafi farið á svig við lög og telur útilokað að áratugareynsla af dómarastörfum geti verið ólögmætt sjónarmið í þessu tilfelli. 

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sat fyrir svörum á fundi nefndarinnar milli níu og tíu í morgun. Ákveðið var að halda fundinum áfram klukkan eitt því ekki gafst færi á að svara öllum spurningum nefndarmanna og auk þess vill nefndin fá gögn frá ráðherranum og dómnefnd um hæfni umsækjenda. Þá á að boða á fund nefndarinnar formenn dómnefndarinnar, Lögmannafélagins, Dómarafélagsins og Björgu Thorarensen lögfræðiprófessor og Trausta Fannar Valsson lögfræðidósent sem bæði eru sérfróð í stjórnsýslu.  

Dómsmálaráðherra skipti út fjórum körlum fyrir tvö karla og tvær konur í tillögu sinni og segir að til þess að nýr dómsstóll verði skilvirkur ætti dómarareynslan að vega nokkuð mikið í mati og þykir vægi dómarareynslunnar í umsögn dómnefndarinnar ekki nægilegt: 

„Og í raun má segja að dómarareynslan hafi í raun borið skarðan hlut frá borði m.a. með því til dæmis að nefndin tók ekkert sérstakt tillit til reynslu af stjórn þinghalda eða samningu og ritun dóma eins og þó reglur gera ráð fyrir að sé gert“, segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.

Ástráður Haraldsson einn umsækjenda, sem er hæstarréttarlögmaður og í stjórn Lögmannafélagsins, er ekki í tillögu Sigríðar en á lista dómnefndarinnar. Hann telur þessa embættisfærslu ráðherrans vera ólögmæta í bréfi til forseta Alþingis í gærkvöld. 

„Ég get nú ekki tekið undir það. Lögin eru auðvitað alveg skýr. Þau heimila ráðherra að víkja frá mati nefndarinnar og með aðkomu Alþingis þannig að það er alveg skýrt. Þess utan tel ég auðvitað alveg útilokað að telja að það geti verið ólögmætt sjónarmið að bæta inn fjórum dómurum með áratugareynslu af dómstörfum. Það getur varla verið ólögmætt.“

Þeir nefndarmenn sem Fréttastofu talaði við í morgun vildu ekki koma í viðtal því þeir vildu kynna sér málið betur.

Hér til hliðar má sjá opið bréf Ástráðs Haraldssonar til forseta Alþingis.