Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vill skýrari leikreglur í ráðstöfun bújarða

01.12.2015 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: Hannes Jóhannsson - RÚV
„Vel ræktanlegar jarðir eiga að vera í notkun til matvælaframleiðslu“, segir í svari Sigrúnar Magnúsdóttur Umhverfisráðherra við fyrirspurn Fréttastofu vegna eyðijarða í Meðallandi. Hún segir að skipun starfshóps ráðuneyta vegna ríkisjarða gæti orðið til bóta og að hlutverk Landgræðslunnar sé að græða land, en ekki safna bújörðum.

„Helmingur ríkisjarða í Skaftárhreppi er í eyði eða landbúnaður ekki stundaður á þeim. „Það virðast ekki vera nein verkferli eða heildarsýn í því að byggja ríkisjarðir aftur, þegar þær fara úr ábúð. Ráðuneyti og ríkisstofnanir leggjast á eitt í að leggja þessar jarðir í eyði“, segir Eirný Valsdóttir starfsmaður Brothættra byggða í Skaftárhreppi.“ Þetta segir í frétt ruv.is 23. nóvember. http://www.ruv.is/frett/eins-og-ad-faekka-eigi-bujordum .

Vill skýrari leikreglur

Í svari Umhverfisráðherra er bent á að nýstofnuð undirstofnun Fjármálaráðuneytisins, Ríkiseignir, hafi mikilvægu hlutverki að gegna í allri ráðstöfun ríkisjarða og ábúðar þeirra. Fjármálaráðherra móti stefnuna um hvernig eigi að ráðstafa ríkisjörðum til ábúðar. Þar segir einnig að Umhverfisráðuneytið hafi viljað og leitað eftir við  fjármálaráðuneytið að leikreglur væru skýrari um réttindi og skyldur viðkomandi ríkisstofnunar. Umhverfisráðuneytið hafi trú á að með Ríkiseignum fari mál í betra horf. En gæta þurfi að því að við ráðstöfun jarða þurfi að fylgja stjórnsýslulögum og gæta jafnræðis við úthlutun réttinda.

Ágreiningur um eignarnám

Í svarinu segir að bæði Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins hafi fengið lönd til umsjónar með ýmsum hætti. Á grunni eldri laga hafi ríkið hafi tekið lönd eignarnámi og falið Landgræðslunni. Ágreiningur hafi orðið um jarðeignir sem teknar hafi verið eignarnámi. Eðlilega eigi Landgræðslan að græða land, ekki safna bújörðum. Vel ræktanlegar jarðir eigi að vera í notkun til matvælaframleiðslu. Nýtt ákvæði í jarðalögum sé til bóta, en það kveði á um rétt ábúenda á ríkisjörðum til kaupa á þeim. Því sé eðlilegt eftir að Landgræðslan hafi endurbætt landið að landeigendur geti keypt það aftur. Ef til vill væri til bóta að stofna starfshóp ráðuneyta um að flokka jarðir í eigu ríkisins til notkunar.

Aðgerðaáætlun endurheimtar í smíðum

Í áðurnefndri fyrirspurn var spurt um snertifleti eyðijarða og endurheimtar votlendis, sem nú er til umfjöllunar í Umhverfisráðuneytinu. Ráðherra segir að samráðshópur á vegum ráðuneytisins vinni að aðgerðaáætlun endurheimtar votlendis. Þar sé meðal annars til skoðunar að hvar slík verkefni séu fýsileg á jörðum í eigu ríkisins. Til dæmis mætti byrja á jörðum þar sem ekki er búskapur. En mikilvægt sé einnig að bæta rannsóknir og vöktun í losun. Endurheimt votlendis þarfnist kortlagningar og val á jörðum verði í samráði við Ríkiseignir og síðan borið undir viðkomandi sveitarstjórn. 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV