Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill skoða leiðir til að dýpka Landeyjahöfn

19.04.2019 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Samgönguráðherra vill skoða hvort hægt sé að finna betri leiðir til þess að dýpka Landeyjahöfn. Enn liggur ekki fyrir hvenær hún verði opnuð.

Landeyjahöfn hefur verið lokuð frá því í nóvember. Síðustu tvö ár gat Herjólfur byrjað að sigla í Landeyjahöfn í byrjun mars en ekki hefur verið gefið út hvenær höfnin verði opnuð í ár. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segist vona að aðstæður við höfnina batni. „Vegagerðin hefur þetta náttúrulega með höndum. Það hefur því miður verið þannig að verðrið, náttúruöflin hafa verið okkur óhagstæð núna í vetur og þar af leiðandi ekki gefist margir dagar til þess að dýpka höfnina.“ 

Segist skilja sjónarmið heimanna

Eftir að Vegagerðin samdi við fyrirtækið Björgun ehf um dýpkun hafnarinnar í nóvember sagðist bæjarstjórn Vestmannaeyja strax óttast að það myndi ekki ganga, tækjakostur fyrirtækisins sé ekki nógu öflugur. „Eins og ég segi þá hafa veðuráhrif verið með þeim hætti að afar fáir hefðu komist inn þegar ölduhæðin er svona há. Ekki einu sinni þeir sem þarna voru áður og voru mjög afkastamikilir. Og ég hef bara mikinn skilning á þeim sjónarmiðum sem Vestmanneyingar höfðu varðandi Björgun og ég veit að þeir aðilar hafa haft uppi hugmyndir um að vera með öflugri búnað, öflugri skip,“ segir Sigurður Ingi. 

Hann telur að það sé erfitt að finna aðrar leiðir til þess að leysa þessa stöðu sem Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, hefur ítrekað sagt að sé óboðleg. „Það er auðvitað erfitt að gera það, kljást við náttúruöflin en við þurfum líka kannski að skoða það til lengri tíma hvort að þær aðferðir sem að notaðar hafa verið séu þær bestu,“ segir samgönguráðherra.