Vill skoða breytingar á stýringu á ferðamönnum

17.10.2018 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, segir tímabært að velja sem allra fyrst hentugan ferðamannastað til að kanna hvort stýra þurfi ferðamönnum með öðrum hætti en gert er. Skýr merki séu um að mörg svæði séu komin að þolmörkum.

Ráðherrann flutti Alþingi í dag skýrslu sína um þolmörk ferðamennsku sem ítrekað hefur verið rædd í kjölfar þess gríðarlega fjölda ferðamanna sem streymir hingað til lands. Ráðherra sagði í framsögu sinni að nú sæjust skýr merki um það víða hér á landi að svæði séu komin að þolmörkum. Það þýði á mannamáli að svæðið þolir ekki meiri ágang við óbreyttar aðstæður.

„Ég tel að það sé orðið tímabært fyrir okkur að velja hentugan ferðamannastað til að keyra slíkt verkefni á til reynslu, útfæra verkferla sem henta á þeim stað til að hefja markvissa stýringu, meðal annars á grundvelli þolmarka og vöktunar á þeim. Ég mun beita mér að við hefjum slíkt verkefni sem allra fyrst,“ sagði Þórdis á Alþingi í dag.

En sitt sýnist hverjum, hvort sem rætt er um þolmörk innviða landsins eða samfélagsleg þolmörk svæða, og mörgum þingmönnum finnst stjórnvöld bregðast of seint við og gera allt of lítið. Skýrslan sé áfellisdómur yfir stjórnsýslu ferðamála. „Af hverju erum við enn þann dag í dag að markaðssetja og leggja áherslu á staði eins og Gullfoss, Geysi og Þingvelli? Ætti áherslan ekki öll að vera á að markaðssetja aðra staði og aðra landshluta en þann hluta Suðurlands eins og höfuðborgina þar sem ágangurinn er mestur og þolmörkum er náð?“ spurði Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingar. 

Ari Trausti Guðmundsson sagði þolmörk snúast um aðgangsstýringu, sem kalli á samvinnu allra sem hlut eigi að máli, það ferli kalli á einhver ár. „Þessi svona harkalegu og óyndislegu viðbrögð, sem mörgum finnst, við milljónum ferðamanna eru fullkomlega eðlileg, þau eru okkur sjálfum og þau eru ferðamönnunum til góðs því að ferðamenn eru ekki hingað komnir til þess að standa í langri biðröð sem nær frá Hakinu og alla leið niður á Þingvelli,“ sagði Ari Trausti. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi