Vill setja upplýsingar um greiðslur á vefinn

15.02.2018 - 10:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Steingrímur J Sigfússon, forseti Alþingis vill setja upplýsingar um akstur og fastar greiðslur til þingmanna á vef Alþingis. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2. Málið verður tekið á dagskrá í forsætisnefnd á næstunni

Eins og reglurnar eru núna fylgist enginn með akstri þingmanna.  „Auðvitað er það þannig að það er talsvert í höndum þingmannsins að tilgreina aksturserindið og við verðum rétt að treysta því að menn geri það samkvæmt bestu samvisku.“ 

Steingrímur segir að erfitt sé að sannreyna aksturinn. Menn þyrftu þá að skila  skriflegum gögnum um fundarboð eða tölvupósta þar sem sjá mætti hvort þingmanni hafi verið boðið að sækja atburð o.s.frv. Hann segir að nú standi til að taka reglurnar á dagskrá i forsætisnefnd. 

„Bæði reglurnar sjálfar og líka upplýsingagjöfina. Og ég bind vonir um að menn muni sjá innan skamms veruleg skref tekin í þeim efnum þar sem  við tökum saman á vef Alþingis t.d. stöðu hvers og eins þingmanns. Þannig að menn þurfi ekki að vera að hafa fyrir því að tína það saman.“

Þar kæmi fram hvað færi í húsnæðis- og dvalarkostnað, hvort þingmaður sé með álag á þingfarakaup vegna nefndarformennsku o.s.frv. Allar fastar greiðslur væru þannig teknar saman á einn stað og öllum aðgengilegar.

„Og síðan er þá eftir að skoða betur reglurnar og upplýsingagjöfina um breytilegan kostnað sem er þessi endurgreiddi og útlagði ferðakostnaður. Það getur verið akstur á eigin bíl, það getur verið flug og það getur verið bílaleigubíll. Allt saman þarf þetta að vera hafið yfir vafa og það er auðvitað ómögulegt að þjóðþingið sé undirlagt af svona umræðu. Við eigum ekki að bjóða upp á það.“  
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi