Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill selja sögufræga fiðlu fyrir handstóra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Vill selja sögufræga fiðlu fyrir handstóra

11.09.2018 - 13:43

Höfundar

Það kennir ýmissa grasa í fjárlagafrumvarpinu. Eitt af því er að fjármálaráðherra fái heimild til að selja nærri 400 ára gamla Maggini-fiðlu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og verja andvirðinu til kaupa á öðru hentugra hljóðfæri. Og hver skyldi ástæðan vera fyrir því að þessi fiðla er sett í sölu? Hún er of stór fyrir þá fiðluleikara sem nú eru í Sinfóníuhljómsveitinni.

Maggini-fiðlan á sér býsna merkilega sögu en hún var sennilega smíðuð árið 1620. Giovanni Maggini var merkur fiðlusmiður, fæddur um 1580, og fyrstu hljóðfæri hans þykja mjög eftirsóknarverð, enda hljómurinn einstakur.

Maggini-fiðlan var keypt á árdögum Ríkisútvarpsins og fyrst notuð af Jóni Sen. Jón spilaði í Útvarpshljómsveitinni sem síðar varð Sinfóníuhljómsveit Íslands og var um tveggja ára skeið konstertmeistari. Hann varð síðan annar konsertmeistari, og gegndi því starfi þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1984.

Fiðlan hentaði Jóni vel, enda hávaxinn og með stórar hendur. Ari Þór Vilhjálmsson sem var leiðari 2. fiðlu Sinfóníuhljómsveitarinnar í nokkur ár gat einnig notað Maggini-fiðluna „en síðan hann lét af störfum fyrir nokkrum árum hefur enginn getað notað hana,“ útskýrir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í samtali við fréttastofu.

Og þar er komin skýringin á því af hverju Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, leitar eftir heimild í fjárlagafrumvarpinu til að selja Maggini-fiðluna. Hún er einfaldlega of stór fyrir þá fiðluleikara sem nú eru í Sinfóníuhljómsveitinni. „Þegar RÚV er hlutafélagavætt árið 2007 er gerður samningur um að við pössum upp á þetta hljóðfæri og okkur finnst synd að enginn skuli leika á það.“

Maggini-fiðlurnar geta verið fiðluleikurum býsna hjartfólgnar. Til að mynda birtist nokkuð fróðlegt en stutt spjall við Henri Marteau í Alþýðublaðinu í apríl 1930. Blaðamaður blaðsins kallaði Marteau síðasta klassíska fiðlumeistarann og fiðluleikarinn sagði frá því þegar bandarískur auðmaður vildi kaupa af honum Maggini-fiðluna. „Hann hefði eins getað boðist til að kaupa hjartað úr brjósti mér.“

Arna segir að því miður hafi einhverjum dottið í hug á 19. öld að minnka hljóðfærið sem Sinfóníuhljómsveitin passar. Það hafi gert það að verkum að verðgildi fiðlunnar hafi minnkað.  Verðmæti hennar geti þó hlaupið á 15 til 20 milljónum.